*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 14. maí 2018 16:11

Hreinsun gatna kynnt með SMS skilaboðum

Reykjavíkurborg hyggst tryggja að hreinsun gatna og göngustíga fari ekki fram hjá neinum, 12 dögum fyrir kosningar.

Ritstjórn
Oft hefur svifryksmengun mælst yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík á undanförnum árum.
Haraldur Guðjónsson

Hreinsun gatna og göngustíga gengur samkvæmt áætlun segir í fréttatilkynningu sem Reykjavíkurborg hefur sent frá sér.
Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg sent bréf til íbúa, þar sem þeim er kynnt hvenær vorhreinsun fer fram í þeirra götu en nú í í ár verður gerð tilraun með að senda smáskilaboð til íbúa.

Þetta er sagt vera gert til að ná betur til íbúanna og þessa dagana er verið að senda út SMS skeyti í farsíma íbúa í hverfi 110. Einnig verða send skeyti til íbúa í hverfi 108 þegar kemur að hreinsun þar. Reykjavíkurborg vill með þessu framtaki bæta upplýsingagjöf til íbúa og nota umhverfisvænar boðleiðir, en sending smáskilaboða er hluti af því segir í tilkynningunni.

Rétt er að taka fram að hér er um tilraun að ræða og verða viðbrögð íbúa við þessari nýjung könnuð. Þeir sem fá skilaboð eru beðnir um að gefa sitt álit  og gangi tilraun vel, vonast starfsfólk Reykjavíkurborgar til þess að geta hætt að senda dreifibréf í hús, en um 45.000 slíkum hefur verið dreift árlega.

Smáskilaboðin eru send á alla sem skráðir eru með búsetu í því hverfi sem á að hreinsa samkvæmt skráningu á ja.is og því mögulegt að hún sé ekki rétt í öllum tilvikum.  Viðtakendur eru beðnir um að  nýta tækifærið og uppfæra sínar upplýsingar. Íbúar eru hvattir til að auðvelda hreinsunarstörfin með því að huga að bílum sínum.

„Það flýtir mjög fyrir og skilar betri þrifum þegar bílar eru færðir úr götunni og er ekki lagt á ný fyrr en hreinsun er að fullu lokið. Þetta gildir eingöngu um almenn stæði í götunni og á borgarlandi, en ekki stæði innan lóðarmarka íbúðarhúsa og fyrirtækja," segir í boðunum og þar eru einnig upplýsingar um hreinsunardaga.

Kosið er til borgarstjórnar eftir 12 daga, það er 26. maí næstkomandi, en mikil umræða hefur verið um hreinsun gatna í borginni og hafa ýmsir frambjóðendur gagnrýnt borgina í þeim efnum.