Hlutfall nýskráðra bifreiða hérlendis sem nýta rafmagn eða blandaða orkugjafa hefur aukist úr 3% í 65,5% á rúmum sjö árum, líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í vikunni. Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, segir þróunina hér á landi vera í eina átt hvað vinsældir rafmagns- og tengiltvinnbíla varðar, en því megi þó ekki gleyma að hún sé mun hægari víðast hvar annars staðar.

„Það er frábært hve mikið úrval af rafmagns- og tengiltvinnbílum hefur aukist hér á landi en okkur hættir þó til að horfa á þróunina út frá Íslandi og Noregi, þar sem aðgengi að umhverfisvænu rafmagni er betra en víða annars staðar. Þróunin er almennt ekki jafn hröð annars staðar í Evrópu, og hún er eðli máls samkvæmt mismunandi eftir aðstæðum í hverju landi. Stór hluti rafmagns er víða framleiddur með óhreinni orku en við erum með hér, til dæmis kolum, og þar sem framleiðsla rafmagns mengar meira en bensín- eða dísilbíll er ekki mikil glóra í því að rafvæða bílaflotann,“ segir Úlfar.

Honum þykir því yfirlýsingar stórra bifreiðaframleiðenda um algjöra rafvæðingu á komandi árum skjóta skökku við.

„Ég átta mig ekki á því hvernig þetta á að ganga upp til lengri tíma, vegna þess að það eru ekki allir markaðir með aðgang að umhverfisvænu rafmagni, þetta er ekki eins einfalt og af er látið. Það er mjög áhugavert að skoða útblásturstölur í Evrópu, en þar er Toyota að meðaltali með langminnsta útblásturinn á hvern bíl. Það er ekki vegna þess að Toyota sé með svo mikið af rafmagns- eða tengiltvinnbílum. Það er vegna þess að hybrid-kerfi Toyota eru orðin svo öflug og hafa dregið mjög mikið úr útblæstri, auk þess sem bensín- og dísilvélar eru farnar að menga mun minna en fyrir 10 eða 15 árum. Þannig að umræðan og áherslan er í dálítið þröngu samhengi.“

Leigur kjósi bensín og dísil

Þá bendir hann á að eftirspurn eftir bensín- og dísilbílum sé enn til staðar hópa, meðal annars hjá einstaklingum sem ferðist um hálendið og hjá bílaleigum.

„Bílaleigurnar sækjast eftir hagkvæmum bílum út frá þeirra rekstri og þar henta dýrir rafmagnsbílar almennt ekki. Þær taka heldur bensín- og dísilbíla, einfaldlega vegna þess að þeir eru að hluta til ódýrari og hins vegar vegna þess að ferðamennirnir kjósa þá heldur. Ég veit um leigur sem eru með fullt af plug-in hybrid bílum en leigja þá bara út sem hybrid-bíla, vegna þess að þær vita að ferðamenn sem dvelja hér í nokkra daga eru gefa sér síður tíma til þess að hlaða og vegna þess að snúran skilar sér gjarnan ekki í hús aftur, með tilheyrandi kostnaði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .