Eftir þær miklu efnahagsþrengingar sem alþjóðamarkaðir gengu í gegnum haustið 2008 hafa hlutabréfamarkaðir víðast hvar einkennst af miklum hækkunum. Hrunið á Íslandi kom hins vegar í veg fyrir að íslenskir lífeyrissjóðir gætu rétt úr kútnum með endurfjárfestingum á alþjóðamörkuðum.

Um 30% af eignum sjóðanna nú eru erlendar eignir en heimild er til þess að vera með yfir 50% af eignum sjóðanna í erlendum eignum.

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir það hafa verið „hreint skelfilegt" fyrir sjóðina að geta ekki stækkað eignarhlut sinn erlendis eftir hrunið sem varð hér haustið 2008.

„Gjaldeyrishöftin hafa reynst lífeyrissjóðunum gríðarlega dýr þar sem þau hafa komið í veg fyrir að sjóðirnir hafi getað tekið þátt í uppsveiflunni sem varð á hlutabréfamörkuðum í fyrra. Fagfjárfestar eins og lífeyrissjóðir hafa víðast hvar náð að rétta úr kútnum eftir áföllin 2008. Það gera sér ekki allir grein fyrir því hvað þetta er stórt atriði fyrir lífeyrissjóðina. Gjaldeyrishöftin hafa algjörlega lokað fyrir þessar fjárfestingar og það er hreint skelfilegt."

Olíusjóðurinn skýrt dæmi

Einn þeirra sjóða sem varð fyrir miklu höggi var Olíusjóður Norðmanna. M.a. tapaði hann á einni viku í september yfir 2.500 milljörðum íslenskra króna, skömmu eftir fall Lehman Brothers. Til samanburðar er það mun hærri fjárhæð en sem nemur öllum eignum íslensku lífeyrissjóðanna.

Yngve Slyngstad, sjóðsstjóri Olíusjóðsins, og stjórn sjóðsins öll, fjárfesti hins vegar fyrir gríðarlega fjárhæðir, yfir 6.000 milljarða króna, á erlendum hlutabréfamörkuðum þar sem fyrirsjáanlegt var að hinni skörpu niðursveiflu myndi fylgja skörp uppsveifla. Sú varð raunin en meðaltalshækkun á erlendum hlutabréfamörkuðum í fyrra nam rúmlega 60%.

Þetta skipti sköpum fyrir norska sjóðinn og raunar norskt efnahagslíf þar með. Hrafn segir lífeyrissjóðina hafa átt erfitt um vik eftir hrunið hvað fjárfestingar varðar. Þar munar mest um gjaldeyrishöftin en einnig aðstæður hér á landi. Hlutabréfamarkaðurinn féll saman með hruni bankanna og fjárfestingartækifæri lítil verið.

„Þetta hefur því verið erfitt fyrir lífeyrissjóðina og sorglegt að geta ekki verið með áhættudreifinguna þannig að meira af eignunum sé í erlendum eignum. En ég tel að heilt yfir hafi þeir haldið vel á spöðunum við um margt fjandsamlegar aðstæður."

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .