Í samkomulagi 13 lífeyrissjóða við skilanefnd Landsbanka Íslands um uppgjör á gjaldmiðlaskiptasamningum var ekkert uppgjörsgengi. Lífeyrissjóðirnir hafa bókfært samningana á genginu 175 í ársreikningum sínum. Þess í stað var samið um viðmið, hvernig skuldajöfnun yrði háttað og meðferð vaxta. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins innan lífeyrissjóðanna er hreint tap þeirra vegna þessa uppgjörs, eftir skuldajöfnun, 7 milljarðar króna. Enn á eftir að semja við skilanefndir Glitnis og Kaupþings um gjaldmiðlaskiptasamninga og aðra afleiðugerninga sem lífeyrissjóðirnir voru með við gömlu bankana. Búið er að ákveða fundi síðar í ágústmánuði og áhersla er lögð á það hjá lífeyrissjóðunum að klára málið í haust.

Skuldajöfnun vó þungt

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að tapstaða lífeyrissjóðanna samkvæmt samkomulaginu við skilanefnd Landsbankans hafi verið í kringum 20 milljarðar króna. Samið var um að skuldajafna skuldabréf sem sjóðirnir áttu að upphæð um 13 milljarðar króna og því er hrein tapstaða þeirra um 7 milljarðar króna. Vert er að taka fram að lífeyrissjóðirnir höfðu bókfært tap vegna þessa í ársreikningum sínum. Skilanefnd Landsbankans hafnar því að ofangreindar tölur séu réttar en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Kröfuhafafundur verður haldinn í byrjun september og þar verður samkomulagið kynnt fyrir kröfuhöfum Landsbankans.

60% af heildarupphæðinni

Arnar Sigurmundsson, stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða, bendir á að skuldabréfin sem lífeyrissjóðirnir áttu á Landsbankann hefðu verið verðlaus með öllu ef ekki hefði tekist að skuldajafna þau, enda bendir mat skilanefndarinnar ekki til að eignir dugi fyrir forgangskröfum í bú bankans. „Skuldajöfnunin vó um 60% af heildarupphæðinni. Sumir sjóðir gátu skuldajafnað 100%. Sjóðirnir höfðu gert ráð fyrir að gera upp samningana á 175 og greiða síðan vexti ofan á það. Niðurstaðan er mjög nálægt því.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.