*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 14. nóvember 2004 18:13

Hreyfing komin á viðræður um frelsi í heimsverslun

Ritstjórn

Á föstudaginn lauk fjögurra daga fundalotu samninganefndar um frjáls vöruviðskipti í Alþjóðaviðskiptastofnunni (WTO) í Genf undir forystu Stefáns Hauks Jóhannessonar sendiherra Íslands. Samninganefndin um frjáls vöruviðskipti (Non- Agricultural Market Access - NAMA) er ein af þremur stærstu samninganefndunum í Dóha-lotunni svokölluðu um frelsi í alþjóðaviðskiptum.

Fulltrúi eins af stærstu aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sagði í lok síðasta fundarins að hún væri uppgefin en jafnframt sátt við árangurinn. Skipulag fundarins og sá rammi sem formaðurinn setti umræðunni hafi verið mjög árangursríkur segir í Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins.

"Formaðurinn sendi út lista yfir skilgreind viðfangsefni fyrir fundinn og á þessum þremur dögum höfðum við tækifæri til að ræða þau bæði að viðstöddum öllum ríkjunum [147 talsins - innskot Stiklur] og í minni hópum, þar sem færi gafst á opinskáum skoðanaskiptum?. Fram kom í samantekt ýmissa ríkja á fundinum að nýjar hugmyndir hefðu verið ræddar og vísir að
mögulegum lausnum sem þarfnast ennþá mikillar úrvinnslu.

Úr almennri umræðu í skilgreind ágreiningsefni Stefán Haukur sagði að fundalotan hafi gengið betur en menn höfðu þorað að vona eða haft ástæðu til að ætla. ?Margar sendinefndir höfðu orð á því að það er kominn gangur á viðræðurnar.Við erum að færast úr almennri umræðu yfir í efnismeiri og afmarkaðri vandamál. NAMA samninganefndin fæst að sjálfsögðu við lækkun
tolla á iðnaðarvörur en að auki eru þar til umfjöllunar ýmis tengd álitaefni. Mörg þeirra eru mjög mikilvæg fyrir áframhaldandi vöxt í alþjóðaviðskiptum og má sem dæmi nefna viðskiptahindranir aðrar en tolla (NTB, Non Trade
Barriers)"

Stefán Haukur segir að einhugur ríki um að taka á viðskiptahindrunum, ekki síst meðal þróunarríkjanna. "Jafnvel þó tollar lækki þá aukast ekki nauðsynlega viðskipti, til dæmis vegna ýmiskonar kvaða og magntakmarkana. Fyrirtæki í útflutningi verða fyrir barðinu á þessum kvöðum. Við Íslendingar þekkjum þetta vel frá fiskútflutningi til ákveðinna ríkja en líklega skaða slíkar viðskiptahindranir þróunarríkin mest, enda eru þau verr í stakk búin til að fullnægja ýmsum tæknilegum kröfum sem iðnríkin setja vegna vöruinnflutnings," sagði Stefán Haukur við Stiklur.

Næsta viðræðulota í NAMA samninganefndinni um iðnvarning hefst 6. desember. Vonast er til þess að samkomulag náist um meginþætti nýs
alþjóðasamnings um frelsi i vöruviðskiptum fyrir næsta ráðherrafund aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Hong Kong í desember á næsta ári.