Íslenskir aðalverktakar hafa afhent Hreyfingu og Blue Lagoon Spa húsnæði fyrir nýja heilsulind sem opnuð verður í Glæsibæ um áramót. Nýja húsnæðið er rúmlega 3.600 fermetrar að stærð, tvöfalt stærra en núverandi húsnæði Hreyfingar í Faxafeni. Aðalverktaki við bygginguna er Íslenskir aðalverktakar, Teiknistofan Óðinstorgi teiknaði húsið og VA arkitektar sáu um hönnun innanhúss.

Í tilkynningu vegna afhendingarinnar segir að húsnæðið sé hannað sérstaklega fyrir starfsemi heilsulindarinnar. Í rúmgóðum salarkynnum má finna sérhannaða sali fyrir fjölbreytta þolfimitíma Hreyfingar auk hjólatíma. Allur tækjabúnaður  heilsulindarinnar verður af nýjustu og fullkomnustu gerð. Björt og rúmgóð veitingaaðstaða er á svæðinu, auk þess sem boðið er upp á barnagæslu.

Blue Lagoon Spa mun bjóða spa-meðferðir sem byggja á einstökum virkum efnum Bláa Lónsins. Fram til þessa hafa meðferðirnar eingöngu verið fáanlegar í Bláa Lóninu í Grindavík. Í allri hönnun spa-svæðisins er áhersla lögð á að skapa tengingu við hið náttúrulega umhverfi Bláa Lónsins. Gestir hinnar nýju heilsulindar geta einnig slakað á í gufuböðum og heitum pottum.

Í tilkynningunni er haft eftir Ágústu Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar að það sé mikið tilhlökkunarefni að opna hina nýju og glæsilegu heilsulind. „Með því að sameina Hreyfingu og Blue Lagoon Spa undir einu þaki gefst okkur tækifæri til að bjóða aukna þjónustu og aðgang að heilsulind á heimsmælikvarða.”