Hreyfing og Orkuveita Reykjavíkur hafa samið um að sjó verði veitt í heita potta nýrrar heilsulindar Hreyfingar og Blue Lagoon spa við Glæsibæ í Reykjavík. Áhrif sjávar á heilsu eru talin heilnæm og góð fyrir húðina.

Í tilkynningu vegna samningsins segir að sjórinn sem veitt verður í heitu pottana sé jarðsjór sem tekinn er úr sjávarkantinum norður af Sæbraut gegnt Kringlumýrarbraut með borun niður á um 14 metra dýpi. Sjórinn fer síðan í gengum sandsíunarbúnað áður en hann er afhentur til Hreyfingar.

Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, hlakkar til að geta boðið viðskiptavinum sínum að slaka á í heitum sjó. Í tilkynningunni er haft eftir Ágústu: “Það er alkunna að sjór hefur góð áhrif á heilsuna og sjóböð hafa verið stunduð víða um heim um langt skeið. Viðskiptavinum okkar gefst kostur að njóta sjávarins við bestu aðstæður, í heitum og notalegum potti á nýja útisvæðinu okkar.“