Fjármálaeftirlit Bretlands, FCA, hyggst ráðast í 11 milljóna punda vitundarátak, eða sem nemur nærri tveimur milljörðum króna, til að vara fólk við hættunum sem leynast á bak við áhættusamar fjárfestingar og aðstoða neytendur að taka betri fjárfestingaákvarðanir.

Eftirlitið hefur óskað eftir umsóknum frá áhrifavöldum til að taka þátt í herferðinni. Ýmsir áhrifavaldar hafa verið gagnrýndir fyrir að auglýsa hlutabréfaöpp sem hafa hlotið miklar vinsældir meðal ungs fólks, að því er kemur fram í frétt BBC .

Í skýrslu FCA segir að stór hópur fólks hafi komið nýr inn á hlutabréfamarkaðinn og fjárfest í vörum sem bera of mikla áhættu miðað við fjárhasgstöðu viðkomandi einstaklinga. Umræddir áhugafjárfestar kunna að horfa til viðskiptanna í leit að æsandi upplifun frekar en að leggja fyrir sér langtíma sparnaðarmarkmið.

Fyrsta fjárfesting hjá 45% af fjárfestum á aldrinum 18 til 29 ára fór í rafmyntir, samkvæmt rannsókn fjárfestingavettvangsins Interactive Investor. Viðskipti þessara ungu fjárfesta voru oft fjármögnuð með blöndu af kreditkortum, námslánum ásamt öðrum lánum.

„Fjárfestar hafa aldrei haft jafn mikið frelsi. Tæknin hefur veitt markaðnum meira lýðræði, nýjar vörur hafa litið dagsins ljós og fólk hefur betri aðgang að sparnaði sínum,“ segir Sarah Pritchard, framkvæmdastjóra markaða hjá FCA. „Þessu frelsi fylgir þó áhætta. Við viljum gefa neytendum aukið sjálfstraust til að fjárfest örugglega og skilja betur áhættuna sem liggur þar á bak við.“