Seðlabankar heims glíma við miklar áskoranir í ljósi mikils verðbólguþrýstings sem myndast hefur á heimsvísu samferða mikilli óvissu varðandi hagvaxtarhorfur. Efnahagsleg óvissa hefur aukist í ljósi hertra ferða- og samkomuaðgerða stjórnvalda víða um heim vegna hins svokallaða Ómíkrón-afbrigðis kórónuveirunnar. Þá hriktir einnig verulega í stoðum eins stærsta og mikilvægasta hagkerfis heims, Kína, en þar hefur einkaneysla dregist saman og fasteignamarkaðurinn stendur höllum fæti vegna mikilla fjárhagsvandræða kínverska fasteignarisans Evergrande.

Töluverðar áhyggjur ríkja vegna stöðu mála í Kína, einu stærsta hagkerfi heims. Fasteignamarkaðurinn hefur verið ein helsta stoð hagvaxtar þar í landi í mörg ár en hefur haft í för með sér síaukna skuldsetningu hjá verktökum, fasteignafélögum og jafnvel heimilum. Fjárhagsörðugleikar fasteignarisans Evergrande hafa varpað ljósi á þessa miklu skuldsetningu og þær miklu afleiðingar sem gjaldþrot gæti haft á kínverska hagkerfið, jafnvel alþjóðahagkerfið. Xi Jinping, forseti Kína, virðist tilbúinn að láta Evergrande og aðra fasteignarisa verða gjaldþrota fremur en að bjarga þeim með ríkisfjármunum. Kínversk stjórnvöld hafa nú þegar tekið meirihluta sæta í áhættustýringarnefnd félagsins og munu þau keppast við að láta væntanlegt gjaldþrot hafa sem minnst áhrif á hagkerfið í heild.

Fari fasteignamarkaðurinn kólnandi eru keðjuverkandi áhrif hins vegar óumflýjanleg, allt frá byggingarverktökum til birgja þeirra og fjölda afleiddra greina. Lækkandi hagvöxtur í Kína mun jafnframt hafa víðtæk áhrif á alþjóðahagkerfið. Greining OECD á stöðunni gaf til kynna að 2% lækkun hagvaxtar í Kína gæti lækkað hagvöxt um 0,4% á heimsvísu. Áhrifin á Japan og hagkerfi í Austur-Asíu yrðu mest. Þá gætu áhrifin orðin enn víðtækari ef framleiðslugeta kínverska hagkerfisins á ýmsum varningi, sem er notaður um allan heim, dregst saman.