Ætla má að hrina gjaldþrota sé framundan hjá rússneskum fyrirtækjum ef vextir í landinu lækka ekki á næstu misserum. Þetta segir Anatoly Aksakov, háttsettur embættismaður í fjármálakerfi Rússlands, í bréfi til seðlabankans þar í landi.

Samkvæmt frétt CNN um málið segir Aksakov nauðsynlegt að seðlabankinn lækki stýrivexti í þessum mánuði úr 17% í 15%. Síðan þurfi vextirnir smám saman að lækka niður í 10,5%. Eins og staðan sé í dag þurfi fyrirtæki að borga svo mikið fyrir lán að rekstrarhæfi þeirra sé í hættu. Lægri vextir geri bönkum kleift að lána meira til fyrirtækja og einstaklinga.

Ummæli Aksakov eru í takt við áhyggjur af versnandi efnahagsástandi Rússlands. Rúblan hefur fallið mikið að undanförnu, ekki síst vegna lækkandi olíuverðs. Það hefur ýtt undir mikla verðbólgu í landinu sem stjórnvöld hafa reynt að hemja með hækkun stýrivaxta. Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch lækkaði lánshæfiseinkunn landsins í síðustu viku.