Átak gegn matarsóun, loftslagsvæn orka, landgræðsla og barátta fyrir jafnrétti kynjanna eru meðal áherslumála Íslands við að hrinda í framkvæmd Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þetta kom fram í ávarpi Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, á sérstökum ráðherrafundi um markmiðin í New York.

Sagði hún baráttu gegn matarsóun gagnaðist bæði við minnkun úrgangs og við að ná loftslagsmarkmiðum. Jafnframt tók hún fram í ræðu sinni að Ísland myndi vinna að markmiðunum heima fyrir, en einnig styrkja þróunarríki við að ná þeim. Hún nefndi í því samhengi starf verkefna Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, þar sem nemendur frá þróunarríkjum fá fræðslu á sviði jafnréttismála, landgræðslu, fiskveiða og jarðhita.

Sigrún sagði að fullt jafnrétti kvenna og virk þátttaka væri nauðsynleg forsenda þess að Heimsmarkmiðin næðu fram að ganga.  Markmiðin eru 17 talsins, með 169 undirmarkmiðum. Þau voru samþykkt haustið 2015 og eiga að vera leiðarljós ríkja við að bæta lífskjör og efla umhverfisvernd til 2030.