Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hringdi bjöllu Nasdaq Kauphallarinnar á Íslandi á alþjóðlegum degi kvenna í morgun. Yfir áttatíu kauphallir víða um heim tóku þátt í slíkum viðburði í dag en þetta er í fjórða sinn sem Nasdaq Ísland tekur þátt. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Auk Nasdaq stóðu UN Women á Íslandi, Félag kvenna í atvinnulífinu og Samtök atvinnulífsins að viðburðinum sem fram fór í Hörpu í morgun. Þema dagsins þetta árið er #ChooseToChallenge og er markmiðið að vekja máls á kynjahlutdrægni og ójafnrétti auk þess að fagna vinnu og afrekum kvenna.

„UN Women vilja með þema dagsins í ár beina sjónum að kvenleiðtogum, kvennasamtökum og kvennastéttum og hlutverki þeirra við að móta jafnari framtíð í kjölfar Covid-19 faraldursins. Sem aldrei fyrr er jöfn þátttaka kvenna við ákvörðunartöku, gerð stefnumála og lagasetninga viðurkennd, sem skilar sér í betra samfélagi fyrir alla og hefur m.a. sýnt sig í viðbrögðum við COVID-19,“ segir í tilkynningu.