Ás­geir Jóns­son, seðla­banka­stjóri Ís­lands, segir í ítar­legu við­tali við Morgun­blaðið í dag að ríkis­sátta­semjari hafi verið hringjandi í sig til að hafa á­hrif á stýri­vaxta­hækkun í vetur á meðan kjara­deilur voru í hnút.

„Ég hélt síðast­liðið haust, að verka­lýðs­hreyfingin myndi átta sig á því að það að elta verð­bólguna í launa­hækkunum myndi vera alveg skýrt en þannig fór það nú samt. Jafn­vel sumir verka­lýðs­foringjar, sem voru mjög æstir yfir að geta ekki fengið meira. Nú vilja sömu foringjar halda úti­fundi til þess að mót­mæla af­leiðingum gerða sinna,“ segir Ás­geir í sam­tali við Morgun­blaðið.

Spurður um hvort það sé ekki upp­byggi­leg sjálfs­gagn­rýni svarar Ás­geir því játandi og bætir við að auð­vitað sé ekki bara við verka­lýðs­hreyfinguna að sakast, Sam­tök at­vinnu­lífsins verða líka að huga að þessu. „það hefnir sín fyrir þeim líka að gera samninga um­fram það sem inni­stæða er fyrir.“

Hann segir síðan á­kveðin með­virkni í gangi þar sem þeir sem sömdu kvörtuðu yfir hækkuninni.

„Ríkis­sátta­semjari var hringjandi hingað til þess að hafa á­hrif á Seðla­bankann. Við ættum ekki að hækka vexti og helst ekki tjá okkur af því að for­maður VR væri ekki stöðugur í skapi og hlypi út af fundum ef hann sæi eitt­hvað úr Seðla­bankanum. Reyndu síðan að fresta vaxta­á­kvörðunar­fundi og svo fram­vegis. Það er ekkert annað en með­virkni,” segir Ás­geir.

Hægt er að lesa við­talið í heild í Morgun­blaðinu hér.