Hringdu hefur ákveðið bjóða viðskiptavinum sínum upp á ótakmarkað gagnamagn frá og með deginum í dag.

Þessi nýjung á íslenskum fjarskiptamarkaði kemur í kjölfar tilkynningar Símans um að frá og með 1. september hyggist hann rukka viðskiptavini sína fyrir alla internetnotkun, bæði innlenda og erlenda, upp- og niðurhal.

Hringdu ehf. hefur lýst því yfir að þessi tilhögun Símans sé slæm fyrir neytendur – að breytingarnar bæði dragi úr gegnsæi og opni á frekari gjaldskrárhækkanir á fjarskiptamarkaði.

Með ótakmörkuðu gagnamagni þurfa notendur nú ekki lengur að velta fyrir sér hvort þeir séu að sækja eða senda frá sér of mikið af gögnum, og hvort gögnin séu erlendis eða innanlands.

“Við erum ánægð með að hafa stigið þetta skref. Síminn hefur sennilega búist við að hin fjarskiptafyrirtækin færu að fordæmi þeirra, en við teljum að neytendur taki þessum möguleika fagnandi,” segir Játvarður Jökull Ingvarsson [framkvæmdastjóri] Hringdu.

Ótakmarkað gagnamagn verður í boði fyrir ADSL tengingar frá og með deginum í dag, og innan skamms verður þjónustan einnig fáanleg fyrir notendur með Ljósnets- og ljósleiðaratengingar.

Um Hringdu

Hringdu er óháð fjarskiptafyrirtæki sem býður upp á alhliða fjarskiptaþjónustu til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana.

Við leitumst ávallt við að bjóða viðskiptavinum okkar upp á hagstæðustu og bestu lausnir sem völ er á hverju sinni yfir Ljósleiðara, Ljósnet og ADSL.

Í smækkandi heimi hefur þörfin aukist fyrir samskipti við útlönd yfir net, síma og farsíma. Með tilkomu Hringdu er nú í boði áður óþekkt verð á símtöl til útlanda hvort sem hringt er úr fastlínusíma eða farsíma.

Hringdu er í einkaeigu íslenskra aðila, meðal annars Jóns von Tetzchner stofnanda Opera Software.