Viðskiptahraðallinn Hringiða hófst í byrjun vikunnar en þetta í annað skiptið sem hraðallinn, sem einblínir á hringrásarhagkerfið og Klak - Icelandic Startups hefur umsjón með, er haldinn. Alls bárust þrjátíu umsóknir og voru sjö teymi valin til að taka þátt í ár. Umrædd fyrirtæki eru: Snerpa Power, e1, Plogg-In, Green Bytes, SideWind, ÝMIR Technologies og Gerosion.
Hraðallinn stendur yfir í átta vikur og er samstarfsvettvangur fyrir hringrásarfyrirtæki á Íslandi. Í hraðlinum gefst einstaklingum úr fyrirtækjum og stofnunum kostur á að kynnast öðru fólki sem hefur brennandi áhuga á og vinnur innan hringrásarhagkerfisins. Er markmið Klak að þátttakendur í Hringiðu verði að hraðlinum loknum í stakk búnir til að sækja um styrki í LIFE-áætlun Evrópusambandsins. Samkeppnissjóðurinn byggir á hugmyndafræði hringrásahagkerfisins og hefur fjármagnað verkefni á sviði loftslags- og umhverfismála frá árinu 1992. Ísland varð hluti af LIFEáætluninni í byrjun árs.
Bakhjarlar Hringiðu eru Orkuveita Reykjavíkur, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Reykjavíkurborg, Sorpa, Terra, Faxaflóahafnir, Samtök iðnaðarins og Ölgerðin.
Hér að neðan verða teymin sjö kynnt til leiks, eitt af öðru.
Snerpa Power
Snerpa Power virkjar stórnotendur rafmagns með því að sjálfvirknivæða álagsáætlanagerð og besta tilboðsgerð inn á markað með kerfisþjónustur. Félagið bætir þannig nýtingu orkuauðlinda, dregur úr aflskorti og eykur samkeppnishæfni raforkumarkaðar.
E1
Um er að ræða hleðslulausn fyrir rafbíla sem hefur það að meginmarkmiði að efla uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og stuðla að hraðari orkuskiptum í samgöngum á Íslandi með því að auðvelda tengingu rafbílaeigenda við eigendur hleðslustöðva. E1 hefur frá árinu 2015 þróað smáforrit fyrir samnýtingu hleðslustöðva. Lausnin gerir hleðslustöðvareigendum kleift að skrá hleðslustöð sína í kerfið og fá aðgang að þjónustukerfi e1. Þannig geta þeir fengið tekjur af notkun stöðva sinna með því að hafa opinn aðgang að þeim fyrir alla rafbílaeigendur.
Plogg-In
Stefna Plogg-In er að hvetja til aukinnar umhverfisvitundar með betri upplýsingatæknitólum og sterkari samskiptakerfum. Meðal þjónustuleiða Plogg-In er samnefnt kortlagningarkerfi fyrir plokkara, útivistarfólk og umhverfissinna, og Gögn-In sem er kerfi sem safnar landfræðilegum rauntímagögnum, staðlar og bestar þau til notkunar í ýmsum umhverfistengdum verkefnum og rannsóknum. Loks býður félagið upp á snjalllausnina B-In sem bestar sorphirðu í borgum með hjálp rauntímagagna.
Green Bytes
Green Bytes er skipulagstól fyrir veitingastaði sem aðstoðar við að draga úr matarsóun og gerir notendum þannig kleift að spara peninga og tíma. Lausnin gerir veitingastöðum kleift að leggja inn pantanir til allra birgja í einu. Þá reiknar hún út hversu mikið af hverju hráefni eigi að panta með því að nýta gervigreind sem spáir fyrir um komandi sölu. Í smáforritinu má jafnframt fylgjast með birgðastöðu sem uppfærist sjálfkrafa út frá sölu hvers dags.
Side Wind
SideWind vinnur að þróun umhverfisvænna lausna fyrir flutningaskip og stefnir að framleiðslu vindtúrbína sem komið er fyrir í opnum gámum. Vindmyllugámarnir nýta hliðarvind sem annars færi til spillis til framleiðslu rafmagns. Telur félagið að með þessu megi framleiða 5-30% af orkuþörf skipa.
Ýmir Technologies
Ýmir Technologies sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á lausnum sem miða að því að búa til verðmæti úr því sem áður var flokkað sem úrgangur. Félagið á í miklu samstarfi við Sorpu og gengu félögin til að mynda síðasta sumar frá samkomulagi um tilfærslu og gangsetningu á vinnslulínu ÝMIS til meðhöndlunar úrgangs frá dýraslátrun við GAJU í Álfsnesi.
Gerosion
Ráðgjafa- og rannsóknarfyrirtækið Gerosion þróar nýjan umhverfisvænan kragasalla fyrir rafgreiningarker álvera. Jafnframt vinnur það að þróun umhverfisvæns arftaka koltjörubiks, en koltjörubik losar frá sér krabbameinsvaldandi efni. Þá hefur Gerosion m.a. aðstoðað Kísilmálmverksmiðju Elkem Íslandi á Grundartanga við að beita nýstárlegum aðferðum til að nýta betur aukaafurðir sem falla til við framleiðsluna.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .