Hringiðan hefur samið við IMC Ísland um aðgang að farsímadreifikerfi. Hringiðan getur nú boðið viðskiptavinum sínum farsímaþjónustu til viðbótar við internet og símaþjónustu. Forsvarsmenn Hringiðunnar og IMC Íslands undirrituðu samning þessa efnis á föstudag í síðustu viku.

Í tilkynningu frá Hringiðunni er haft eftir Guðmundi Kr. Unnsteinssyni, framkvæmdastjóra Hringiðunnar, að hann er ánægður með samstarfið. Þetta sé hluti af því markmiði að bjóða viðskiptavinum Hringiðunnar fjölbreytta fjarskiptaþjónustu á hagstæðum kjörum.

IMC Ísland þjónustar nú þegar Alterna, Símafélagið og Hringdu með farsímaþjónustu.