„Það leggst mjög vel í mig að taka við þessu starfi. Ég hef starfað með Matvælastofnun í gegnum Matís lengi og líkað mjög vel. Ég hlakka til að starfa með öllu því frábæra fólki sem þar starfar,“ segir Hrönn og bætir við að hún sé afar þakklát fyrir að fá þetta virkilega spennandi tækifæri. „Ég hef virkilega sterka sýn á matvælaöryggi framtíðarinnar og hvernig sé hægt að taka næstu skref fyrir Matvælastofnun inn í framtíðna.“

Hrönn er með bakgrunn í umhverfisefnafræði en að hennar sögn var það faðir hennar sem hafði mikil áhrif á val hennar á námi. „Þetta var pínu tilviljun en ég vil eiginlega kenna pabba mínum alfarið um þetta. Hann er prófessor í líffræði og var að fikta við umhverfis- og mengunarmælingar þegar ég var að klára menntaskóla og var oft að segja okkur frá þessum áhugaverðu rannsóknum við kvöldmatarborðið. Það voru þessi samtöl sem kveiktu áhuga minn á faginu.“

Hún bætir við að umhverfisfræðin séu í raun fjölskylduáhugamál þar sem önnur af hennar tveimur systrum fór líka í þann geira. „Þegar ég var að byrja í þessum fræðum þá fann ég það að mér þótti þetta virkilega áhugavert og skemmtilegt. Það er gaman að finna að maður sé að gera eitthvað gott og gagnlegt.“

Hrönn segir að hún sé með ólæknandi hjóladellu og stundar hún bæði fjallahjólreiðar og götuhjólreiðar. „Undanfarin ár hef ég verið bæði að þjálfa og æfa hjólreiðar og ég varð meira að segja Íslandsmeistari í fjallahjólreiðum árið 2017.“ Hún bætir við að hún hafi einnig áhuga á almennri útivist og hún skíði mikið á veturna ásamt fjölskyldunni sinni.

Hrönn býr með Brynjari Guðmundssyni en hann rekur heildsölu sem sérhæfir sig í innflutningi á íþróttatengdri næringu. Þau eiga bæði börn úr fyrri samböndum en Hrönn á þrjú börn sem eru 9, 13 og 15 ára.

„Á veturna förum við fjölskyldan gjarnan á Siglufjörð til að skíða en við eigum íbúð þar. Síðan förum við oft að heimsækja fjölskyldu mína sem býr rétt fyrir utan Stykkishólm en hún er með geitur og hesta. Þess utan horfum við oft á myndir saman og förum í sund.“

Spurð hvernig hún hafi varið sumrinu segir Hrönn að það hafi upphaflega staðið til að fjölskyldan færi í tveggja vikna ferð til Króatíu en sökum COVID-19 hafi ekkert orðið út þeirri ferð. „Í staðinn leigðum við húsbíl og ferðuðumst um landið. Það var afar gaman og miklu auðveldara en ég bjóst við.“