Nasdaq Iceland, í samstarfi við UN Women á Íslandi, Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) og Samtök atvinnulífsins (tengiliður UN Global Compact), tekur nú í fjórða sinn þátt í sameiginlegum viðburði á heimsvísu á meðal kauphalla um að hringja bjöllu fyrir jafnrétti kynjanna á Alþjóðadegi kvenna 2021, 8. mars. Þema UN Women fyrir daginn í ár er #ChooseToChallenge sem vekur máls á kynjahlutdrægni og ójafnrétti en er einnig ætlað að fagna vinnu og afrekum kvenna.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og ráðherra jafnréttismála, verður heiðursgestur og mun hringja opnunarbjöllu markaða þann 8. mars. Viðburðinum verður streymt.

UN Women vilja með þema dagsins í ár beina sjónum að kvenleiðtogum, kvennasamtökum og kvennastéttum og hlutverki þeirra við að móta jafnari framtíð í kjölfar Covid-19 faraldursins. Sem aldrei fyrr er jöfn þátttaka kvenna við ákvörðunartöku, gerð stefnumála og lagasetninga viðurkennd, sem skilar sér í betra samfélagi fyrir alla og hefur m.a. sýnt sig í viðbrögðum við COVID-19.

Allar Nasdaq kauphallirnar á Norðurlöndunum, í Eystrasaltslöndunum sem og í New York taka þátt í viðburðinum, en að því standa sameiginlega UN Global Compact, UN Women, Sustainable Stock Exchanges (SSE) Initiative, IFC, World Federation of Exchanges og Women in ETFs.

Kauphallir um allan heim eru sérstaklega hvattar til frekari aðgerða sem eru til þess fallnar að bæta jafnrétti kynjanna á þeim mörkuðum sem þær starfa. Nasdaq hefur þegar skrifað undir Jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna um þau grunngildi sem snúa að valdeflingu kvenna og tengjast m.a. mannréttindum, banni við mismunun, heilsu og öryggi, menntun og fleiru (Women’s Empowerment Principles - WEP) og Nasdaq Iceland hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um að vinna að markmiðum Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu.

Þá hefur Nasdaq gefið út valfrjálsar leiðbeiningar fyrir fyrirtæki um birtingu upplýsinga um samfélagsábyrgð (UFS), sem félög geta nýtt sér þegar birtar eru upplýsingar um sjálfbærni og jafnréttismál í rekstri, eins og jafnlaunavottun og kynjahlutfall í stjórnunarteymum.