Ingi Björn Sigurðsson, sem nýverið var ráðinn fjárfestingastjóri hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, kveðst spenntur fyrir þessari nýju áskorun, en hann hefur þegar hafið störf. „Það er  skemmtilegt að fá að takast á við ný og spennandi verkefni og kynnast nýjum vinnufélögum."

Ingi bendir á að til þess að stuðla að áframhaldandi verðmætasköpun í samfélaginu þá þurfi að huga að fyrstu skrefum fyrirtækja.

„Að mínu mati er kominn tími til að byggja upp fleiri stoðir undir íslenskt efnahagslíf. Þar hafa sjóðir eins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins lykilhlutverki að gegna enda er þörf á áhættufé sem er þolinmótt,  en sjóðurinn býr yfir þeim munaði að geta veitt slíkt fé. Það er einnig mjög mikilvægt fyrir frumkvöðlafyrirtæki að vera með styrka stoð innan eigendahópsins til þess að sækja fjármagn erlendis og þar hefur sjóðurinn sömuleiðis gífurlega mikilvægt hlutverk. Þá má einnig benda á að það er þörf fyrir fleiri frumkvöðlafjárfesta á Íslandi. Eins og staðan er í dag eru aðeins örfáir sjóðir sem sérhæfa sig í slíkum fjárfestingum."

Ingi hefur í áraraðir starfað í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjaumhverfinu. „Ferill minn í þessum geira hefur verið skemmtilegur. Ég byrjaði fyrst á því að stofna nokkur frumkvöðlafyrirtæki, svo fór ég í það að hjálpa frumkvöðlum að fjármagna sig og hef ég veitt  fjölmörgum íslenskum og erlendum fyrirtækjum ráðgjöf. Í kjölfarið fór ég að vinna hjá Icelandic Startup, þar sem ég miðlaði því sem ég lærði af þeim mistökum sem ég gerði sjálfur sem frumkvöðull. Núna er ég genginn til liðs við  áhættufjárfesti og er því í raun búinn að loka hringnum."

Ingi segir að hann muni koma til með að sakna fyrrverandi samstarfsfélaga sinna hjá Icelandic Startups, enda sé þar á ferð einvalið lið af hressu og skemmtilegu fólki.

Í frístundum sínum þykir Inga best að búa til minningar og eiga gæðastundir með fjölskyldu sinni, en hann er giftur Tinnu Hrund Birgisdóttur og saman eiga þau fjögur börn. Þegar blaðamaður náði tali af Inga var einmitt ein slík gæðastund í gangi, en fjölskyldan var þá stödd í Vestmannaeyjum þar sem sonur þeirra hjóna tók þátt í Orkumótinu í fótbolta.

„Mér þykir gífurlega mikilvægt að gefa fjölskyldunni tíma, því tími er sennilega það sem skortir mest í heiminum. Því er eins gott að nýta hann vel meðan börnin nenna að eyða stundum með manni. Þegar þau eru vaxin upp úr grasi þá vill maður hafa eytt tímanum með þeim og búið til góðar minningar, frekar en að hafa eytt tímanum í eitthvað annað sem skiptir mun minna máli."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .