Í nóvember síðastliðnum greindi Viðskiptablaðið ítarlega frá „hringnum“, en það er leið sem erlendir aflandskrónueigendur hafa farið og þannig hagnast á höftunum. Högnunartækifærið felst í fjárfestingu í íbúðabréfum fyrir aflandskrónur. Þegar afborgun af höfuðstól og vöxtum berst er greiðslunni skipt í gjaldeyri á seðlabankagengi, eins og leyfilegt var. Fyrir þann gjaldeyri eru keyptar krónur á aflandsmarkaði og fjárfest fyrir í íbúðabréfum að nýju. Þannig myndast hagnaður vegna mikils munar á skráðu gengi krónunnar og aflandsgengi hennar.

Með breytingum á lögum um gjaldeyrismál, þar sem gjaldeyrishöfin voru hert, er þessari leið nú svo til lokað, þar sem nú er aðeins leyfilegt að fara út með vaxtagreiðslur af skuldabréfunum.

Þessi eiginleiki hefur verið aflandskrónueigendum ljós og leitt til að krafa bréfanna hefur verið í öðrum gír en á öðrum íslenskum skuldabréfum. Við lok viðskipta á mánudag var krafa á bréfin neikvæð um 10,3% en endaði á að vera um 0 prósent við lok viðskipta á þriðjudag, fyrsta viðskiptadag eftir lagabreytingar. Krafan hefur nú hækkað enn meira og er um 1%.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.