*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 9. nóvember 2017 15:55

Hringvegurinn mun liggja um firðina

Á laugardag verður vegnúmerum breytt þannig að þjóðvegur 1 verður brátt malbikaður allan hringinn.

Ritstjórn
Þjóðvegur 1 mun framvegis liggja í gegnum Stöðvarfjörð
Haraldur Guðjónsson

Laugardaginn 11. nóvember mun formlega ganga í gildi sú breyting á vegnúmerum á Austurlandi að framvegis liggur þjóðvegur númer 1, Hringvegurinn, um suðurfirðina en ekki um Breiðdalsheiði líkt og verið hefur. Sama dag verða Norðfjarðargöngin, sem koma í stað Oddskarsðganga, opnuð, en þau tengja Neskaupsstað við Eskifjörð og Reyðarfjörð á láglendivegi.

Þegar brúarframkvæmdum yfir Berufjörð sem nú standa yfir verður lokið og tilheyrandi malbikun vegarins í beinu framhaldi af því, ætti hringvegurinn, þjóðvegur 1 loks að verða malbikaður allan hringinn í kringum landið.

Þannig mun þjóðvegur 1 liggja þar sem leið liggur, eftir þjóðvegi sem áður var númer 92, frá Egilsstöðum, framhjá Reyðarfirði, í gegnum Fáskrúðsfjarðargöng um þjóðveg sem áður var númer 96, í gegnum Stöðvarfjörð og áfram að Breiðdalsvík. Vegurinn um Breiðdalsheiði og Skriðdal sem áður hafði númerið 1 fær nú númerið 95.

Ferðamenn hætti að reyna að fara lokaða leið

Það er von Vegagerðarinnar að þessi breyting muni fækka þeim tilvikum sem ferðamenn, sem til dæmis margir koma með Norrænu, velji að fara um Breiðdalsheiði þótt hún sé kirfilega lokuð – jafnvel með lokunarslá. Sem dæmin sanna að gerist ítrekað að vetri til.

Mismunandi vegvísun verður eftir árstíðum og verður ekki vísað á t.d. Egilsstaði um Breiðdalsheiði að vetri þegar heiðin er lokun enda ekki forsvaranlegt að vísa vegfarendum á lokaða fjallvegi.

Þessi breyting mun engin áhrif hafa varðandi fyrirhugaðar vegaframkvæmdir á Austurlandi hvort sem þær vegaframkvæmdir eru þegar ákveðnar eða eru til skoðunar. Þá verður engin breyting á þjónustu Vegagerðarinnar hvorki vetrar- né sumarþjónstu segir í frettatilkynningu frá stofnuninni.

Starfsmenn Vegagerðarinnar eru þessa daga að breyta merkingum og setja upp bráðabirgðaskilti sem sýna þessa breytingu. Sjá meðfylgjandi mynd af skilti. Setja þarf upp tvær fjarlægðatöflur, 8 leiðamerki, 14 vegvísa, 20 ný vegnúmeraskilti og bráðabirgðaskiltin eru 6.

Þá verður límt yfir 34 skilti fyrir ný vegnúmer og breyttar vegalengdir. Ekki er víst að öllum þessum breytingum verði lokið fyrir 11. nóvember en því mun verða lokið á fáum dögum. Reiknað er með að kostnaður nemi 8-12 milljónum króna.