Borgun hefur fengið Sæmund Sæmundsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Sjóvár, til að taka við stjórn fyrirtækisins.

„Fyrstu dagana er ég að setja mig inn í reksturinn og kynnast fyrirtækinu, menningunni hérna og kúltúrnum. Það er það sem skiptir mestu til að byrja með, enda er það starfsfólkið sem býr til verðmætin,“ segir Sæmundur sem hefur langa reynslu af stjórnunarstörfum.

„Ég er menntaður tölvunarfræðingur og lærði bæði hérna heima í tölvuháskóla Verslunarskólans, sem er forveri tölvunarfræðinnar í HR, og svo hélt ég áfram námi í Bandaríkjunum. Þar kláraði ég tölvunarfræðina við Háskólann í Texas í Austin. Síðustu tuttugu árin hef ég þó eingöngu verið í stjórnun og bætt við mig skemmri og lengri námskeiðum í því aðallega, svo það þýðir lítið að biðja mig um að forrita í dag. Hins vegar er ómetanlegt að hafa þennan grunn og innsýn inn í tæknina enda eru öll fyrirtæki í raun orðin tæknifyrirtæki í dag.“

Sæmundur segir það hafa verið nokkur viðbrigði að fara út til Texas í nám en þangað fór hann ásamt með konu sinni, Margréti Völu Kristjánsdóttur dósent við lagadeild HR, og tveimur eldri strákum þeirra sem í dag eru orðnir 26 og 29 ára gamlir. Síðan eiga þau einn 19 ára gamlan strák.

Sæmundur á mörg áhugamál, stundar skotveiðar, badminton og hlaup til að halda sér í formi en best finnst honum að fara á ættaróðal fjölskyldunnar í Hrísey.

„Það er besti staðurinn til að vera á, en þar stundum við æðarrækt og skógrækt. Þú kemst ekki mikið nær náttúrunni en þegar þú situr við hliðina á æðarkollu sem þú þarft að lyfta af hreiðrinu í rólegheitum, eins og hægt er að gera við þessar spökustu, til að taka smá af dúninum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .