Hugo Chaves forseti Venesuela hefur fyrirskipað her landsins að yfirtaka hrísgrjónaverksmiðjur í landinu tímabundið. Ástæða yfirtökunnar var sú að forsetinn taldi verksmiðjueigendur hafa óhlýðnast skipun sinni um að þeir lækkuðu hrísgrjónaverðið.

Forsetinn fyrirskipaði svokölluðu þjóðvarðliði að taka völdin og hafa afskipti af allri starfsemi fyrirtækja sem tengdust framleiðslu á hrísgrjónum í Venezuela. Þar á meðal eru fjölmörg innlend og erlend einkafyrirtæki.

„Ríkisstjórnin er hér til að vernda fólkið, en ekki burgeisa eða þá ríku,” sagði Chaves um leið og hann ásakaði fyrirtækin um að hafa hægt á framleiðslu sinni með það að markmiði að koma í veg fyrir verðlækkanir á hrísgrjónum.