Hrísgrjónaverð hækkaði um meira en 10% í gær, og hefur aldrei verið hærra, þegar Afríkuríki fylgdu í fótspor Suðaustur-Asíuríkja og tryggðu birgðir frá þeim útflytjendum sem enn eru að selja hrísgrjón á alþjóðamarkaði.

Hrísgrjón eru aðalfæða 3 milljarða manna samkvæmt frétt Financial Times. Á undanförnum vikum hafa heyrst raddir sem vara við því að mörg ríki í Vestur-Afríku eiga eftir að kaupa grjón á þessu ári, og lenda því í metháu verði núna.

Líbería, Nígería, Senegal og Fílabeinsströndin eru öll á meðal 10 stærstu innflytjenda hrísgrjóna í heimi.

Ríkisstjórnir margra landa sem flytja inn hrísgrjón hafa í ljósi aðstæðna brugðið á það ráð að lækka tolla á innflutning á þeim verulega.