Heimsmarkaðsverð á hrísgrjónum mun að öllum líkindum halda áfram að hækka enn frekar. Alþjóðleg rannsóknarstofnun hrísgrjónaiðnarins telur að gríðaraukin eftirspurn sé nú að klára þær birgðir sem voru til af hrísgrjónum.

Vegna þessarar þróunar hafa ríkisstjórnar margra helstu hrísgrjónaframleiðanda sett takmörk á útflutning til að geta sinnt heimamarkaði. Þau lönd sem hafa tekið upp slíkar takmarkanir eru meðal annars Kína, Víetnam og Egyptaland.

Ýmsar ástæður eru taldar upp fyrir verðhækkun hrísgrjóna í rannsókn stofnunarinnar. Landsvæði til ræktunar er af skornum skammti vegna borgamyndunar, sérstaklega í Kína og Indlandi. Einnig hefur aukin áhersla á kjöt- og mjólkurframleiðslu vegna sístækkandi millistéttar í þeim löndum komið niður á hrísgrjónaframleiðslu. Kaldviðri í Víetnam og flóð í Indónesíu og Bangladess hefur einnig haft slæm áhrif.

Fleiri landbúnaðarvörur hafa hækkað í verði að undanförnu. Hveiti, korn og sojabaunir eru einnig nærri sögulegu hámarki í verði.