Seðlabankinn telur helstu hættuna fyrir fjármálakerfið vera ef bakslag komi í ferðaþjónustu eða húsnæðisverð taki dýfu. Útlán til ferðaþjónustunnar séu orðin álíka og til sjávarútvegs og nemi alls tæplega 17% af útlánum viðskiptabankanna til fyrirtækja. Ársvöxtur útlána til ferðaþjónustu var 23% milli júlí 2016 og júní 2017.

„Hröðum vexti fylgir ávallt áhætta og áframhaldandi vöxtur, einkum ef hann verður út lá nadrif inn, mun leiða til aukinnar samþjöppunar áhættu í lánasafni bankanna,“ segir Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn gaf út í síðustu viku. Bakslag í ferðaþjónustu hefði einnig áhrif á gjaldeyristekjur og gengi krónunnar. Smitáhrifin myndu því ná langt út fyrir greinina sjálfa. Til að mynda séu veruleg tengsl á milli fasteignamarkaðarins og ferðaþjónustu.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöð­ugleikasviðs Seðlabankans, bendir á að nálægt 5.000 heilar Airbnb íbúð­ir séu á ská hér á landi. Til samanburðar hafi ríflega þúsund íbúð­ir verið fullgerðar á síðasta ári. Ylli bakslag í ferðaþjónustu því að stór hluti íbúðanna á skrá Airbnb yrði settur á markað gæti það haft umtalsverð áhrif á fasteignaverð.

Fasteignaverð náð sögulegu hámarki

Arnór bendir á að raunverð fasteigna hafi náð nýju sögulegu hámarki. Hins vegar sé margt sem bendir til þess að aðlögun fasteignamarkaðarins gæti orðið tiltölulega mjúk, að minnsta kosti í samanburði við áhrifin sem bankahrunið 2008 hafði. „Ástæða þess er að verðhækkun fasteigna hefur ekki verið drifin af útlánavexti og að efnahagur heimila, fyrirtækja og fjármálafyrirtækja er mun sterkari en á fyrra tímabilinu,“ segir Arnór. Þá sé eiginfjárstaða og lausafjárstaða bankanna sterkari og erlend skuldastaða þjóðarbúsins hagstæð. Afgangur sé af viðskiptum við útlönd þó dregið hafi úr honum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Leiðrétt : Arnór Sighvatsson var rangfeðraður í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins og er beðist velvirðingar á þeim mistökum.