Á síðustu vikum og mánuðum hafa erlendir fjölmiðlar sýnt netgjaldmiðlinum bitcoin aukinn áhuga. Ráðstefna tileinkuð gjaldmiðlinum var haldin í London í byrjun mánaðarins þar sem saman voru komnir notendur, tölvunarfræðingar, vogunarsjóðsstjórar og fleiri fjárfestar. Sveinn Valfells fjárfestir var meðal ráðstefnugesta. Breski fjölmiðillinn Guardian hafði eftir honum að réttast væri fyrir íslensk stjórnvöld að kasta krónunni og taka upp bitcoin hennar í stað.

Enn sem komið er taka fáar þekktar verslanir eða verslunarkeðjur við bitcoin. Þó eru undantekningar á því og er meðal annars hægt að versla við tískuhúsin Zara og Asos með gjaldmiðlinum. Einstaka barir í Bretlandi taka einnig við bitcoin, en þá má í dag telja á fingrum annarrar handar, auk þess sem minni pókervefsíður taka við myntinni. Á sumarmánuðum vakti Bitcoin-fjárfestingarsjóður Winklevoss-tvíburanna athygli erlendra fjölmiðla.

Tvíburarnir, sem frægastir eru fyrir málaferli gegn Mark Zuckerberg,stofnanda Facebook, segjast eiga um 1% af öllum útgefnum Bitcoin-myntum. Gangi áform þeirra eftir mun fjárfestingarsjóður þeirra halda utan um bitcoin. Sjóðsfélagar fjárfesta í dollurum og vonast tvíburarnir til þess að óbein fjárfesting í rafræna gjaldmiðlinum muni laða fjárfesta að. Stærð sjóðsins í komandi hlutafjárútboði verður um 20 milljónir dollara, jafnvirði 2,5 milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .