Talsverðar athugasemdir eru gerðar við ákveðin atriði frumvarps ríkisstjórnarinnar um hlutdeildarlán. Líkt og oft vill verða eru athugasemdirnar hins vegar ekki þær sömu eftir því hvaðan þær koma.

Í nokkuð einfaldaðri mynd eru hlutdeildarlánin kúlulán veitt af ríkinu til að aðstoða fyrstu kaupendur og einstaklinga við að komast inn á fasteignamarkað. Gert er ráð fyrir að kaupandi eigi fimm prósent útborgun, taki allt að 75% lán hjá lánastofnun og ríkið veiti kúlulán á öðrum veðrétti fyrir því sem út af stendur. Umrætt lán er almennt séð vaxtalaust, endurgreiðist við sölu fasteignar eða að 25 árum liðnum frá lántöku. Endurgreiðslan verður í sama hlutfalli af matsvirði og upphaf lánveitingarinnar nam.

Samkvæmt frumvarpinu má lánþegi ekki vera með hærri heildartekjur en 630 þúsund á mánuði sé um einstakling að ræða eða 880 þúsund ef sambúðarfólk er á ferð. Upphæðin hækkar um 130 þúsund mánaðarlegar krónur fyrir hvert barn. Úrræðið er tímabundið til tíu ára og verður Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heimilt að veita allt að 400 lán á ári fyrir árlega fjóra milljarða króna.

„Verði einhverjir þættir útvíkkaðir eða rýmkaðir frá því sem frumvarpið kveður á um, t.d. tekjumörk, hlutfall hlutdeildarlána af kaupverði eða gerð húsnæðis, gæti það haft þau áhrif að Seðlabankinn sæi sig knúinn til þess að grípa til mótvægisaðgerða með því að auka aðhald á sviði peningamála,“ segir í umsögn Seðlabankans. Hækkandi fasteignaverði gæti verið mætt með hertum reglum um veðsetningarhlutföll fasteignalána en einnig gæti þurft að bregðast við verri útlánagæðum með hærri eiginfjárkröfum á banka. Mikilvægi þess að hrófla ekki við skilyrðunum er því ítrekað af hálfu bankans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .