Íslendingar seldu loðnuhrogn fyrir um 6,8 milljarða króna á síðasta ári. Hér er aðallega um að ræða fryst loðnuhrogn, en af þeim voru flutt út um 10.300 tonn fyrir tæpa 6,6 milljarðar króna, samkvæmt tölum sem Fiskifréttir fengu frá Hagstofu Íslands.

Þar fyrir utan voru flutt út 86 tonn af grófsöltuðum loðnuhrognum fyrir 61 milljón og tæp 90 tonn af niðursoðnum loðnuhrognum fyrir 113 milljónir króna.

Framleiðsla á loðnuhrognum á núverandi vertíð stendur sem hæst. Eftirspurn á markaði er ekki eins sterk og oft áður. Samkvæmt upplýsingum Fiskifrétta er stefnt að svipaðri hrognaframleiðslu í ár og í fyrra. Ósamið er um verð á hrognum en meðalverðið sem fékkst fyrir frystu hrognin í fyrra var um 640 krónur á kíló.

Nánar er fjallað um málið í Fiskifréttum sem komu út í dag ásamt Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.