Nýlega ákvað norska rannsóknaráðið að styrkja rannsóknir á notkun hrognkelsis til aflúsunar á laxi um 200 milljónir. Verkefninu stýrir Albert Kjartan Dagbjartarson Imsland.

Albert er  framkvæmdastjóri hjá Íslandsútíbúi Akvaplan-niva og prófessor í fiskeldi við Háskólann í Bergen. Með í verkefninu eru þrjú af stærstu laxeldisfyrirtækjum í Norður Noregi.

Í fréttatilkynningu segir að laxalús sé eitt af stærri vandamálum við framleiðslu á laxi í sjókvíum í Noregi. Áætlað sé að tjón laxaframleiðenda af völdum laxalúsar í Noregi sé um 45 milljarðar íslenskra króna árlega.

Hins vegar benda nýlegar rannsóknaniðurstöður frá Noregi í fyrri verkefni stýrt af Alberti að hrognkelsið geti skilað miklum árangri í baráttunni við laxalús.