*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Fjölmiðlapistlar 17. mars 2019 13:43

Hroki & hleypidómar

Þessi vandi birtist ágætlega í hitamáli undanfarinna daga, dómi MDE, vegna skipunar dómara í hinn nýja Landsrétt.

Andrés Magnússon
Sigríður Andersen.
Haraldur Guðjónsson

Það er í hitamálunum, sem jafnan reynir mest á fjölmiðla. Eðli máls samkvæmt er þá mörgum heitt í hamsi, offramboð á sterkt orðuðum skoðunum, jafnvel hleypidómum, og æsingurinn iðulega nokkur. Fjölmiðlar þurfa að fjalla um þau mál í takt við anda og áhuga þjóðfélagsins, en þeir verða þó (og þá kannski sérstaklega) að gæta þess að verða ekki æsingnum að bráð.

Hið sérstaka hlutverk fjölmiðla er eftir sem áður að grafast fyrir um hið sanna og rétta, greina kjarna málsins og segja frá með þeim hætti að allir skilji um hvað málið snúist. Þar með auðvitað hvaða skoðanir eru helstar uppi, en eftir sem áður þurfa staðreyndirnar að vera í forgrunni.

* * *

Þessi vandi birtist ágætlega í hitamáli undanfarinna daga, dómi Mannréttindadómstóls Evrópu, vegna skipunar dómara í hinn nýja Landsrétt. Þau mál hafa áður verið til umfjöllunar og vakið mikil viðbrögð, eins og sjálfsagt er þegar jafnviðkvæm mál og skipun dómsvaldsins vekja deilur.

Þar hefur hinn rauði þráður verið pólitískur; skoðanir hafa mjög skipst eftir flokkslínum, en grundvöllur þeirrar gagnrýni er sú almenna, eðlilega og viðtekna skoðun, að dómstólar verði að vera óvilhallir og ópólitískir. Ekki svo að skilja að pólitíkin sé eða verði að vera þar fullkomlega óviðkomandi; lögin kveða á um að Alþingi staðfesti tillögu dómsmálaráðherra um skipun dómara í Landsrétt, svo þar var beinlínis áskilið að pólitísk sjónarmið kæmu við sögu, fyrir nú utan hitt að breytingar ráðherrans á tillögum dómnefndar voru gerðar að áeggjan annarra stjórnmálaflokka með kynjasjónarmið að leiðarljósi og afgreiðsla þingsins á því gerð án athugasemda annarra flokka. Af sama leiðir að fáum ætti að koma á óvart þó gagnrýnin sé að miklu leyti lituð af pólitík.

Vel má vera að dómur Mannréttindadómstólsins sé einnig litaður af pólitískum sjónarmiðum, en eftir sem áður er þar um að ræða rökstuddan dóm, þar sem lagaleg sjónarmið eru reifuð, en hinna pólitísku varla getið nema í framhjáhlaupi. Um margt ræðir þar um flókin lagaleg álitamál, sum ærið tæknileg, svo fjölmiðlum er þar nokkur vandi á höndum. Lögspekingum þjóðarinnar greinilega líka, því því þeir virtust flestir vera fremur feimnir við að tjá sig um málið. Svo fjölmiðlarnir fóru flestir þá leið að leita til hinna sjálfvirku viðmælenda stjórnmálanna með frekar fyrirsjáanlegum árangri.

Um sjálfan dóminn voru íslenskir fjölmiðlaneytendur hins vegar ekkert sérstaklega mikils vísari. Sem er miður, því hann er um margt áhugaverður og skilur margvísleg álitaefni eftir; ekki aðeins hvað varðar hið íslenska tilefni málsins, heldur fyrir alla Evrópu.

* * *

Vitaskuld kappkostuðu flestir miðlar að greina eins vel, nákvæmlega en þó skýrt frá málavöxtum og unnt var. Sumir blaða- og fréttamenn leituðu greinilega ráða hjá lögfræðingum, þó það væri yfirleitt ekki til þess að gera málið auðskiljanlegra. Svo voru vitaskuld aðrir, sem nutu þess að hafa lögfræðimenntað fólk á ritstjórninni, sem að einhverju leyti hafði betri skilning á efninu, en gat líka verið með fullsterkar skoðanir á.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í fyrradag náði þannig Milla Ósk Magnúsdóttir tali af Sigríði Á. Andersen og spurði í þaula, en hugsanlega aðeins of ákaft, því á tímabili var viðtalið við það að leysast upp í debatt. Sem fyrst varð þó vandræðalegt þegar Milla fann sig knúna til þess að upplýsa landslýð um að hún væri líka lögfræðingur.

Fréttamenn eiga ekki að koma sér í þá stöðu að árétting um menntun þeirra varði einhverju. Trúverðugleiki þeirra hvílir á þekkingu þeirra og frásögn af fréttaefninu, spurningum þeirra og þeim svörum, sem þær leiða fram, til þess að þess að upplýsa almenning.

* * *

Í beinu framhaldi af viðtalinu við ráðherrann sigldi viðtal Valgeirs Arnar Ragnarssonar við Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmann Pírata, sem er ekki bara lögfræðingur heldur mannréttindalögfræðingur. Líkt og Milla hafði gert í fyrra viðtalinu lagði Þórhildur Sunna sérstaka áherslu á að í dómnum væri rætt um „svívirðilegt brot" á lögum um skipan dómara. Sem vekur efasemdir um að þær hafi í raun lesið dóminn til hlítar eða af lögfræðilegum skilningi.

Þar er átt við hugtakið „flagrant breach", en þó að í orðabók megi vissulega finna þýðinguna svívirðilegt yfir „flagrant", þá hefur hugtakið sérstaka lagalega þýðingu, eins og er raunar sérstaklega vikið að í dómnum og rætt í þaula í minnihlutaálitinu. Með því er átt við augljóst, áberandi, kæruleysislegt eða jafnvel vísvitvitandi brot, til aðgreiningar frá óviljaverkum og mistökum í framkvæmd laga og reglna.

* * *

Auðvitað skiptir þetta síðastnefnda ekki öllu til eða frá í málinu og á sinn hátt alveg innan marka þrætubókar stjórnmálamanna að Þórhildi Sunnu bresti þekkingu eða grípi til slíkra mælskubragða um það. Menn geta þá bara andæft því.

En það er verra þegar fjölmiðlar falla í slíka gryfju í æsingnum. Þarna ræðir um lagatæknilegt dómsorð, hugtak sem sérstaklega er vikið að, og þá ber miðlunum að fara með sérstakri gát og láta svo gildishlaðna (og ranga) þýðingu eiga sig.

Fréttamenn eiga að láta dramatíseringu frétta eiga sig (og þegar stórfréttirnar eiga í hlut standa þær alveg undir drömunni án stóryrða). Staðreyndir, hlutlæg og sanngjörn frásögn er hlutverk þeirra alla daga, en sérstök ástæða til þess að halda kúlinu þegar hitamálin ganga yfir.

* * *

Að allt öðru, en þó ekki ótengt innanríkisráðuneytinu: Á mánudag kom til átaka nokkurra mótmælenda og lögreglu á Austurvelli, þegar lögreglan vildi fjarlægja eitthvert dót sem hún óttaðist að eldur yrði lagður að. Einhver viðmælandi úr hópi mótmælenda sagði í sjónvarpsfréttum að það hefði gerst þrátt fyrir að borgin hefði leyft þeim að tjalda á Austurvelli, sem ekki skal dregið í efa þó leyfi til mótmælaaðgerða þurfi nú að fá hjá lögreglu.

En er það ekki sérstök óforvitni að spyrja ekki hver hafi leyft það hjá borginni? Jafnvel að inna borgaryfirvöld eftir því? Svona í ljósi fyrri elda á Austurvelli?

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is