Ammar Alkhudairy, stjórnarformaður Saudi National Bank (SNB), stærsta viðskiptabanka Sádi-Arabíu, hefur sagt af sér vegna persónulegra ástæðna. Financial Times greinir frá.

Alkhudairy sagði upp skömmu eftir að hann sagði í viðtali við Bloomberg um miðjan mánuðinn að SNB, sem keypti 10% hlut í Credit Suisse í fyrra, hygðist ekki veita svissneska bankanum frekari fjárhagsaðstoð. Alkhudairy sagði að ef SNB myndi eignast yfir 10% hlut í Credit Suisse myndi það hafa í för með sér auknar kröfur af hálfu eftirlitsaðila.

Þrátt fyrir að ummælin endurspegluðu viðurkennda stefnu innan SNB ‏þá tók hlutabréfaverð Credit Suisse dýfu eftir viðtalið. Svissneski bankinn var keyptur af UBS nokkrum dögum síðar með tilstuðlan neyðarlaga svissneskra stjórnvalda.

Viðmælendur FT sem starfa í Mið-Austurlöndum segja að ummæli Alkhudairy hafi að óþörfu beint athygli að SNB. „Það var ekki góð hugmynd að fara í sjónvarpsviðtal í miðri bankakrísu,“ er haft eftir einum.

Yfirtaka UBS á Credit Suisse leiddi til tæplega eins milljarðs dala taps hjá SNB. Heimildarmaður FT segir að ‏að samsvari þó undir 2% af eignasafni bankans, sem er með 30% markaðshlutdeild í sádi-arabíska bankageiranum.