Hrólfur Ölvisson hefur nú látið af störfum sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins. Ákvörðunina tók hann eftir að Kastljós fjallaði um aðkomu hans að tveimur aflandsfélögum sem voru í Panama-skjölunum svokölluðu. Þetta kemur fram á vefsíðu Framsóknarflokksins .

Hrólfur segir ákvörðun sína ekki vera neina viðurkenningu á því að hann hafi brotið lög eða starfað með óheiðarlegum hætti, heldur sé hann að hætta í ljósi þess hversu „einsleit og óvægin” umræðan hefur verið um aflandsfélög og starfsemi þeirra.

Aukreitis nefnir Hrólfur að því hafi verið ranglega haldið fram að hann hafi keypt hlutafé sitt í BM Vallá með torgryggilegum hætti. Þá hafi Arion banki boðið félagið til sölu í opnu söluferli sem hann ásamt öðrum fjárfestum tók þátt í, og það sé alfarið rangt að bendla kaupin við aflandsfélög.

Hann segist að lokum draga sig í hlé, til að koma í veg fyrir að rýrð verði kastað á Framsóknarflokkinn:

Ég dreg mig í hlé til að koma í veg fyrir að rýrð verði kastað á Framsóknarflokkinn og þau góðu störf sem hann hefur unnið að í tíð þessarar ríkisstjórnar.  Ég er ekki kjörinn fulltrúi en tel þetta engu að síður rétta ákvörðun.