Hrólfur Ölvisson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og tók hann formlega til starfa 1. janúar.   Þetta kemur fram í tilkynningu frá Framsóknarflokknum.

Hrólfur hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri Eiðfaxa hf. sem gefur út samnefnt alþjóðlegt tímarit um íslenska hestinn.

Í tilkynningunni kemur fram að Hrólfur hefur verið virkur félagi í Framsóknarflokknum s.l. 30 ár og verið fulltrúi í miðstjórn flokksins um árabil og var á árum áður m.a. framkvæmdastjóri Sambands ungra framsóknarmanna.

Hrólfur hefur gengt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var framkvæmdastjóri dagblaðsins Tímans frá 1988-1993 og sat sem fulltrúi flokksins í bankaráði Búnaðarbanka Íslands frá 1998-2001.

Jafnframt hefur Hrólfur gengt fjölmörgum opinberum trúnaðarstörfum svo sem stjórnarformennsku í Brunamálastofnun frá 1997-2001, fyrsti formaður stjórnar Vinnumálastofnunar frá 1998-2007, stjórnarformaður Innkauparáðs Reykjavíkurborgar frá 2003-2005 og í siðanefnd Blaðmannafélags Íslands frá 1996-1998.   Á háskólaárum sínum sat Hrólfur sem fulltrúi í stúdentaráði fyrir Félag umbótasinnaða stúdenta og jafnframt sem fulltrúi stúdenta í stjórn Lánsjóðs íslenskra námsmanna frá 1984-1986.   Hrólfur Ölvisson, er 49 ára og kvæntur Irmu Sjöfn Óskarsdóttur, presti og verkefnastjóra á Biskupsstofu. Hrólfur og Irma eiga tvær dætur.