Hrönn Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Bensínorkunnar, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri neytendasviðs hjá Skeljungi hf. frá og með 1. ágúst. Hrönn gekk til liðs við Bensínorkuna í apríl sl. eftir að hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra viðskiptaþróunarsviðs Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar um nokkurra ára skeið, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Hrönn lauk BA námi í félags- og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands árið 1992, MA námi í auglýsingafræði frá Michigan State University árið 1994, MS námi í félagsvísindalegri aðferðarfræði frá University of Edinburgh árið 1997 og MBA námi frá Háskóla Íslands árið 2002.

Þá starfaði hún hjá Búnaðarbanka Íslands til ársins 1997, fyrst sem sérfræðingur í skipulags- og hagræðideild og síðar í markaðsdeild bankans. Á árinu 1997 tók Hrönn við sem rannsóknastjóri hjá ráðgjafafyrirtækinu PriceWaterhouseCoopers ehf. og þremur árum síðar sem þjónustustjóri hjá Íslandsbanka. Því starfi gegndi hún til ársins 2002, er hún réði sig til starfa hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, fyrst sem forstöðumaður markaðssviðs og síðar sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunarsviðs, eins og áður segir.

Hrönn var jafnframt um skeið stundakennari við meistaranám viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands.