Hrönn Sveinsdóttir, stjórnarmaður í Kviku banka, hefur keypt 500 þúsund hluti í Kviku banka, á 10 krónur hvern hlut, fyrir samanlagt 5 milljónir króna. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun vikunnar er hún fjórði háttsetti yfirmaðurinn sem hætt hefur hjá Sýn eða tilkynnt um starfslok hjá félaginu á um tveggja mánaða tímabili.

Hrönn hefur setið í stjórn Kviku banka síðan hún var kjörin í mars 2017. Í framboðslýsingu fyrir aðalfund Kviku banka 14. mars síðastliðinn var greint frá því að hún ætti ekki hlut í bankanum og hafi ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila, samkeppnisaðila eða stóra hluthafa í skilningi leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja.

Hrönn er fædd árið 1967. Hún útskrifaðist með Cand. Oecon próf í viðskiptafræði af endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands árið 1992. Hrönn hóf störf hjá Sýn hf. árið 2005 sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs, en þá hét félagið Fjarskipti, en þar mun hún starfa til 1. júní næstkomandi.

Áður hafði hún gegnt sama starfi hjá P. Samúelssyni þar sem hún var einnig starfsmannastjóri. Hrönn hefur áður gengt stjórnarstörfum hjá Almenna lífeyrissjóðnum, Húsasmiðjunni ehf., Farice, P/F Kall í Færeyjum, ISNIC, Mömmu ehf., Ódýra símafélaginu og P. Samúlelssyni hf.