VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, hefur ráðið Hrönn Greipsdóttur í starf fjárfestingastjóra. Hrönn mun áfram starfa sem framkvæmdastjóri Eldeyjar hjá VÍB en Eldey er fjárfestingafélag sem fjárfestir í afþreyingartengdri ferðaþjónustu.

VÍB hefur séð um umsýslu og vörslu Eldeyjar en samhliða ráðningu Hrannar til VÍB mun eignastýring Eldeyjar einnig fara fram hjá VÍB.

Hrönn er Cand Oecon frá HÍ, MBA Finance frá CASS í London og hefur lokið prófi í Verðbréfamiðlun frá HR.  Starfaði áður hjá Arev verðbréfum, þangað sem hún kom frá Arion banka þar sem hún starfaði sem forstöðumaður á fyrirtækjasviði. Áður stýrði Hrönn einu af dótturfyrirtækjum SPRON sem sérhæfði sig í kröfu og birgðafjármögnun.

Hún starfaði sem deildarstjóri innanlandsdeildar Úrvals-Útsýnar og síðar í tæpan áratug sem framkvæmdastjóri Hótel Sögu ehf.  Hrönn hefur gegnt mörgum ábyrgðastöðum fyrir ferðaþjónustuna, sat í stjórn SAF (Samtök Ferðaþjónustunnar) í 5 ár, var formaður Hótel og Veitinganefndar SAF, sat í Ferðamálaráði og  í stjórn Ráðstefnuskrifstofu Íslands. Auk þess hefur hún setið í stjórnum félaga eins og HF Verðbréfa, Lýsingar, Valitors og Kynnisferða.