Stjórnarandstaðan sakar meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks um valdhroka og það að ganga á svig við samkomulag við stjórnarnandstöðu um að minnihlutinn fengi fjóra af níu fulltrúa í stjórn RÚV. „Hér birtast þingi og þjóð í sinni nöktustu mynd, gömlu helmingaskiptaflokkarnir," sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.

Þá er meirihlutinn sakaður um að brjóta þingskaparlög með því að þingmenn geri hvorum öðrum grein fyrir atkvæði sínu, þegar kosningin um stjórnarmenn eigi að vera leynileg. Mikið hefur verið um hróp og frammíköll á þinginu og forseti þingsins hefur ítrekað þurft að minna þingmenn á að virða þingsköp.

Vísa gagnrýni á bug

Þingmenn stjórnarflokkanna vísa gagnrýni stjórnarandstöðu á bug og segja ekkert samkomulag hafa verið gert þess efnis að stjórnarandstaða fái fjóra fulltrúa af níu í stjórn RÚV. Samkvæmt gildandi lögum eigi stjórnarflokkarnir að fá sex fulltrúa af níu og stjórnarandstaða þrjá. „Það er hér kallað valdhroki. Stjórnarmeirihlutinn hefur eftirlátið stjórnarandstöðu formenn og varaformenn í ýmsum nefndum," sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra af því tilefni.