Matvælayfirvöld í Tékklandi hafa fundið hrossakjöt í kjötbollum frá IKEA þar í landi, að því er kemur fram í frétt á norska fréttavefnum e24.no. Þar kemur fram að matvælaeftirlitið tékkneska hafi þegar í janúar varað við því að í IKEA-bollunum hafi fundist soyaprótein, sem ekki var gerð grein fyrir í innihaldslýsingu og nú hefur hrossakjöt bæst við. Bollurnar koma, líkt og langflestar IKEA-bollur í Evrópu, frá sömu verksmiðjunni og því geta áhrifin verið umfangsmikil.

Stefán Rúnar Dagsson, verslunarstjóri IKEA á Íslandi, segir að allar kjötbollur sem þar eru seldar séu framleiddar á Íslandi. „Kjötið kemur allt frá íslenskum framleiðendum,“ segir Stefán og bætir því við að hann sé mjög feginn því að sú leið var farin þegar svona fréttir koma upp.