Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, segir í viðtali við Niklas Pollard hjá Reuters að erfiðari fjármögnun bankanna og áhyggjur af þeim marki endalok á hröðum vexti erlendis, en þýði ekki að þeir muni eiga í erfiðleikum við að greiða núverandi skuldir eða þurfi að selja eignir. Greinin er svohljóðandi:

"Efnahagslíf Íslands hefur blómstrað síðustu ár, vegna fjárfestinga í álverum og virkjunum þar sem nýtt er ódýr jarðhitaorka eldfjallaeyjunnar. Afnám regluverks á fjármálamarkaði hefur leitt til þess að húsnæði hefur hækkað í verði og bankarnir víkkað út starfsemi sína.

Íslensk fyrirtæki -- ekki síst bankanir þrír, Kaupþing, Landsbanki og Glitnir, áður Íslandsbanki -- hafa látið til sín taka á mörkuðum erlendis, sérstaklega í Bretlandi og á Norðurlöndunum, og keypt eignir í fjármála- og smásölugeiranum.

En í greiningu frá fjárfestingabankanum Merrill Lynch í þessum mánuði var lögð áhersla á áhættuna sem fylgir útþenslu bankanna og Danske Bank í Danmörku sagði í kjölfarið að erfiðleikar í fjármögnun gætu neytt bankana til að selja eignir.

Ókyrrðin sem ríkti meðal fjárfesta í kjölfarið leiddi til þess að gengi bréfa bankanna lækkaði og þurrkaði upp offramboð á fjármagni til að standa undir vexti þeirra.

"Við gerum okkur grein fyrir því að hinn gríðargóði aðgangur að fjármagni sem við höfum notið að undanförnu verður ekki í sama mæli í framtíðinni," sagði Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, í viðtali við Reuters í höfuðstöðvum bankans við sjávarsíðuna í Reykjavík. "Við munum nota næsta ár og einhvern tíma eftir það til að sameina þær eignir sem við höfum tekið yfir."

Þetta útilokaði ekki frekari yfirtökur, sagði Bjarni, en þær yrðu að öllum líkindum "valdar að vel yfirlögðu ráði."

Þótt tímabili hraðrar útþenslu í útlöndum kunni að hafa lokið -- Glitnir hefur keypt fimm fyrirtæki í Noregi, þ.á.m. miðlunarfyrirtækið Norse Securities -- býst bankinn ekki við því að erfitt verði að endurfjármagna eldri skuldir eða að hann þurfi að selja eignir.

Bjarni sagði að fyrirtækið hefði þegar tryggt fjármögnun upp á 1,4 milljarða evra á þessu ári, sem væri meira en nóg fyrir endurfjármögnunarþörfina, sem nam 600 milljónum evra árið 2005 og að hann væri þess fullviss að bankinn myndi geta aflað þeirrar 2,7 milljarða evra endurfjármögnunar sem nauðsynleg yrði á næsta ári.

"Glitnir mun á næstunni ekki þurfa að selja eignir og það kæmi mér mjög á óvart ef hinir bankarnir þyrftu að gera það," sagði hann.

"Þetta þýðir að við þurfum að einblína meira á þjónustu sem byggir á þóknunum og þróa viðskiptalíkan okkar meira í áttina að sjálfbærum tekjum, óháð efnahagsreikningnum. Við þurfum einnig að leita að öðrum valkostum í fjármögnun, eins og fjármögnun sem byggist á innlánum. Innlánastofn okkar hefur þó að minnsta kosti vaxið í réttu hlutfalli við heildarvöxt bankans, sem var ekki raunin á árunum áður."

Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's gaf Glitni lánshæfiseinkunnina A- fyrir langtímaskuldbindingar og A-2 fyrir skammtímaskuldir á þriðjudaginn, með stöðugum horfum, sem endurspeglaði að sögn þess sterka stöðu bankans innanlands og aukna dreifingu á áhættu með vaxandi umsvifum í Noregi.

En það sagði að hraður eignavöxtur bankans og útþenslustefna, sem hugsanlega gætu aukið áhættu, kæmu í veg fyrir hærri einkunn. Einnig reiddi bankinn sig á heildsölufjármögnun í erlendri mynt.

"Þetta markar tímamót," sagði Bjarni. "Þetta gefur markaðinum ný skilaboð og ég held að það sé hughreystandi fyrir okkur að sjá styrk okkar og veikleika -- við viðurkennum hvort tveggja."