Hvernig voru árin eftir hrun í rekstrinum? „Þá hrundi veltan um helming. En við áttum húsnæðið okkar, það er stór kostur að eiga húsnæði þó að menn hafi hamrað á því að selja húsnæði og láta peningana vinna fyrir sig. Eigið fé Epal var líka nokkuð gott því við höfðum nánast aldrei greitt arð. Auðvitað þurftum við að fækka fólki og það var hræðilegt að þurfa að segja upp 17 manns. Það var alveg skelfilegt.“ Eyjólfur átti þá sem nú í góðu sambandi við sína birgja í Skandinavíu, sem hjálpuðu fyrirtækinu að komast yfir erfiðasta hjallann.

„Skömmu eftir hrun fer ég með Jóni Heiðari til Danmerkur og funda með tíu stærstu birgjunum og ræði við þá málin. Einn góður vinur minn þar sagði: „Eyjólfur, þetta er ekki þér að kenna. Þú hefur alltaf staðið í skilum.“ Það setti enginn okkur í fyrirframgreiðslu eða slíkt, við héldum öllum okkar kjörum. Sumir gáfu okkur betri verið til að hjálpa okkur, verð sem við höfum sumum haldið því við höfum aukið söluna svo mikið. En það var mjög skrýtinn tími, að lenda þarna í Kaupmannahöfn og kreditkortin manns virkuðu ekki. Við fórum út að borða og það lá við að við þyrftum að láta okkur nægja pulsu og brauð. Fljótlega eftir það fór þetta þó hægt og sígandi upp á við.“

Aðstoða íslenska hönnuði

Eyjólfur hefur gegnum árin lagt sig fram um að aðstoða íslenska hönnuði og reynir að auðvelda þeim að einbeita sér að sinni hönnun og framleiðslu frekar en markaðs- og kynningarstarfi. Himneskir herskarar, sköpunarverk Páls Garð­arssonar, sem hélt úti litlu verkstæði við Vonarstræti, eru dæmi um vöru sem verður framvegis fáanleg í Epal.

„Í fimm ár hafði ég rætt við Pál um samstarf en hann hafði aldrei tíma fyrir það. Fyrir ári ræddi ég svo við hann aftur og hann sagði já. Tvö af hreindýrunum hans eru á leiðinni til landsins. Þau verða framleidd í Kína en verða nákvæmlega eins og handverkið hans – þyngdin og allt saman. Það var algjört skilyrði.“ Eyjólfur var einn þeirra sem komu að gangsetningu verkefnisins Handverk og hönnun.

„Forsætisráðuneytið setti það af stað á sínum tíma og ég var einn þriggja stjórnarmanna. Í dag hjálpar þetta minni fyrirtækjum og handverksmönnum að eflast og verða betri. Nú er þetta sjálfseignarstofnun sem fær þó peninga frá ríkinu og er mjög þarft verkefni.“ Hann segir oft geta verið erfitt fyrir nýja aðila að koma inn á hönnunarmarkaðinn. „Það þarf peninga. Þegar Epal átti 40 ára afmæli sendi ég línu á skipafélög og banka og aðra sem við höfum skipt við og sagðist ekki vilja afmælisgjafir en lagði til gjafir í sjóð til að efla hönnun á Íslandi. Við fengum þónokkurn pening og lögðum líka sjálf í hann. Núna er því til hönnunarsjóður Epal. Hann er hugsaður þannig að við aðstoðum hönnuði að fjármagna stóra framleiðslu og selja hana. Þá fær hann miklu betra verð. Ef það klikkar getum við alltaf tekið það inn í verslanirnar og selt á kostnaðarverði. Þannig tæmist sjóðurinn aldrei,“ segir Eyjólfur.

Selja betri týpuna af lunda

Epal hefur ekki farið varhluta af þeirri miklu fjölgun ferðamanna sem hefur orðið undanfarin ár, sérstaklega í versluninni við Laugaveg 70 og í Hörpu. „Þær eru að einhverju leyti gerðar út á ferðamenn. Þá má ekki gleyma að við viljum ekki vera hefðbundnar lundabúðir en þurftum hins vegar auðvitað að selja lunda. Sigurjón Pálsson, sem hannaði Vaðfuglinn, hannaði lunda sem við tókum að okkur og seljum.“ Lundinn er ólíkur hefðbundnum lundabúðalundum – úr tré og með höfuð sem festist á búkinn með segulstáli.

„Lundann og Vaðfuglinn er hægt að kaupa í flugvélum Icelandair. Svo hefur Sigurjón hannað annan lunda sem er seldur í vélum Wow,“ segir Eyjólfur og bendir á að lundarnir séu mjög ólíkir. „Svo létum við gera stóran lunda fyrir útstillingu. Við létum gera 50 stykki en svo seldust þeir allir. Þannig að það eru 100 á leiðinni. Menn gefa þennan stóra lunda til dæmis í sameiningu í brúðkaupsgjöf því hann er mjög flottur,“ segir Eyjólfur. „Lundi er ekki sama og lundi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .