Um helmings samdráttur er á innflutningi dagblaðapappírs fyrstu fimm mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra sem þó var slakt ár í dagblaðapappírsinnlfutningi. Hefur innflutningur á dagblaðapappír ekki verið minni í annan áratug miðað við tölur Hagstofu Íslands.

Fyrstu fimm mánuði þessa árs voru flutt inn 1.934 tonn af dagblaðapappír á móti 3.620 tonnum sömu mánuði árið 2009. Á sama tímabili 2008 nam þessi innflutningur 5.264 tonnum, 6.302 tonnum árið 2007 og 7.145 tonnum á sama tíma metárið 2006. Er innflutningur nú sá minnsti á þessari öld og sem dæmi var innflutningur fyrstu fimm mánuðina árið 1999 3.569 tonn. Þá er innflutningur nú aðeins um 27% af innflutningnum fyrstu fimm mánuðina metárið 2006.