Mikill samdráttur varð í sölu á svonefndum lúxusbílum í júnímánuði miðað við sama mánuð í fyrra.

Þegar lúxusmerkin eru talin saman; Audi, BMW, Land Rover/Range Rover, Lexus, Mercedes-Benz, Porsche og Volvo, kemur í ljós að samdrátturinn er allt frá -33% (Volvo), upp í -100% (Porsche).

Í júní í fyrra seldust 147 bílar af þessum gerðum en í júní 2008 voru þeir ekki nema 76. Sala á Audi dróst saman um -65%, BMW -70,4%, Lexus -81,8%, Mercedes-Benz -76,5% og Volvo -33,3%.

Athygli vekur hins vegar að sala á Land Rover/Range Rover í mánuðinum eykst umtalsvert, eða um 42,5%.

Heildarsamdráttur í fólksbílasölu í mánuðinum er hins vegar -14,4%.

Það hefur því hægt mun hraðar á sölu dýrari bíla en hefðbundnari gerða fólksbíla. Þó ber að athuga að inni í sölutölunum, sem koma frá Umferðastofu, er mikill fjöldi bílaleigubíla, eða alls 1.445 bílar af 1.991 bíla heildarsölu í mánuðinum.

Það sem af er árinu hefur selst 7.141 fólksbíll, sem er tæplega -16% samdráttur miðað við fyrstu sex mánuðina í fyrra þegar selst höfðu 8.487 bílar.