„Við höfum í fyrsta lagi rakið samdráttinn til þess að metanbílum fjölgaði hér gríðarlega hratt á sama tíma og eldsneytið var einungis selt á einum útsölustað. Síðan fór hér í gang ákveðið gullgrafaraæði þegar bílum sem voru ekki hannaðir til að brenna metani var breytt í metanbíla. Þá komu upp ýmis vandamál og fúsk sem komu óorði á bílana að ósekju,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, í samtali við Fréttablaðið .

Þar kemur fram að nýskráningum metanbíla hafi fækkað um 82% á fyrstu tíu mánuðum ársins samanborið við sama tímabil árið 2012. Nýskráningar bílanna á þessu ári telja 34 en voru 184 árið 2012. Þá fækkaði jafnframt nýskráningum bifreiða sem breytt hefur verið í metanbíla úr 175 í sex.

Olíufélögin Skeljungur, Olís og N1 hafa öll opnað metanafgreiðslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og einnig var opnuð stöð á Akureyri í byrjun september. „Það er búið að bæta úr þessu og því bind ég vonir við að sala á metanbílum aukist aftur og að við nýtum áfram þetta eldsneyti sem við eigum hér bundið í öskuhaugum landsins í stað þess að sleppa því út í andrúmsloftið,“ segir Özur.