Algert hrun varð á japanska hlutabréfamarkaðnum í dag, en Nikkei vísitalan lækkaði um heil 7,32% í viðskiptum dagsins í dag. Innan dags nam lækkunin mest tíu prósentum. Það sem af er degi hafa evrópskar hlutabréfavísitölur einnig lækkað og þegar þetta er skrifað hefur breska FTSE vísitalan lækkað um 1,9%, þýska DAX um 2,7% og franska CAC um 2,5%.

Samkvæmt frétt BBC eru það neikvæðar tölur af gangi efnahagsmála í Kína sem valda hruninu. Benda þær til að framleiðsla þar í landi hafi dregist saman í maí í fyrsta skipti í sjö mánuði. Haft er eftir sérfræðingum að þetta bendi til þess að markmið kínversku ríkisstjórnarinnar um 7,5% hagvöxt í ár muni ekki nást.

Útflutningsgeirinn í Kína er að hægja á sér og framleiðslugeirinn sömuleiðis. Það þýðir að viðskiptaafgangur Kínverja er nær horfinn, að sögn Francis Lun, aðalhagfræðings GE Oriental Financial Group.