Verð skuldabréfa- og hlutabréfa í Argentínu hefur hrunið sem og gengi gjaldmiðilsins í kjölfar stórsigurs Perónista í sérstökum forkosningum sem haldnar voru í gær í aðdraganda þing- og forsetakosninga í landinu í október komandi.

Þarna fer Argentína er haft eftir Eddy Sternberg, sem stýrir fjárfestingarsjóði í Boston í nýmarkaðsríkjum. „Eina tækifærið sem Argentína hafði á að verða venjulegt land er farið til spillis,“ hefur FT eftir Sternberg.

Forkosningarnar eru almennt álitin mjög góð skoðanakönnun fyrir kosningarnar, en um er að ræða skylduprófkjör allra flokka sem bjóða fram í þing- og forsetakosningunum sem verða 27. október næstkomandi.

Á mörkuðum í dag, síðan niðurstöðurnar komu í ljós í gærkvöldi, hefur gengi argentíska persónsins hrunið um 30,3% og þarf nú að greiða 65 þeirra fyrir einn Bandaríkjadal. Jafnframt hafa 100 ára skuldabréf fallið um meira en fjórðung sem og verðmæti hlutabréfa í landinu.

Kirchner snýr aftur þrátt fyrir ákærur

Unnu frambjóðendur Réttlætisflokksins, forsetaefnið Alberto Fernández og varaforsetaefni hans, fyrrum forsetinn Cristina Fernández de Kirchner sem ákærð hafði verið fyrir brot í starfi, Mauricio Macri sitjandi forseta.

Fengu þau um 47% atkvæða á móti um 33% atkvæða Macri , sem er fyrsti lýðræðiskjörni forseti landsins síðan 1916 sem er hvorki róttækur vinstrimaður eða perónisti, en hann er stofnandi miðhægriflokksins Lýðræðistillögurnar.

Réttlætisflokkur Fernández og Kirchner, er hins vegar stærsti flokkur perónista sem horfa til hugmynda Juan Peron og Evu (eða Evita) Perón annarrar eiginkonu hans, sem þekkt varð um heim allan vegna söngleiks um líf hennar. Juan Perón var vinstriþjóðernispopúlískur hershöfðingi sem síðar varð forseti árin 1946 til 1955 og aftur 1973 til dauðadags 1974, þegar varaforseti hans og þriðja eiginkona, Isabel Martinez de Perón tók við og stýrði landinu til 1976.

Frá því að verndarstefna perónista og aukin ríkisafskipti tók að gæta hefur Argentína hrunið hratt niður listann yfir ríkustu lönd heims, sem landið vermdi framan af síðustu öld eins og New York Times segir frá. Hér að neðan má sjá þekktasta lagið úr áðurnefndum söngleik, þegar Madonna lék hana í frægri bíómynd frá 1996 sem sýndi stjórn þeirra í rómantísku ljósi:

Óvinsælt að koma landinu á réttan kjöl

Stefna Macri hefur löngum verið að koma Argentínu á ný inn á alþjóðlega fjármálamarkaði í samvinnu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, og gera landið sem löngum hefur verið þjakað af valdi sérhagsmunaafla, samkeppnishæfari. Perónistar hafa á móti löngum staðið fyrir út- og innflutningshömlum í landinu sem er einn stærsti framleiðandi nautakjöts í heiminum.

Fögnuðu Perónistar á götum úti og heyrðist hrópað „við munum snúa aftur“, sem er líklegt þar sem það dugir til að ná kjöri í forsetakosningunum að fá 45% atkvæða í fyrstu umferð (eða fá 40% ef þeir eru 10 prósentustigum á undan næsta frambjóðanda).

Ef það næst ekki verður kosið milli tveggja efstu frambjóðendanna 24. nóvember næstkomandi, en þess má geta að Macri er einnig fyrsti forseti landsins sem þurfti að fara í gegnum tvær umferðir, auk forkosninga líkt og þeirra sem voru í gær og eru í raun skoðanakönnun sem allir sem kjósa í prófkjörum sinna flokka taka þátt í.

„Við munum skapa nýja Argentínu. Í þeirri Argentínu er pláss fyrir alla. Hugmyndum um hefnd og flokkadrætti verður hætt,“ sagði Fernández fagnandi stuðningsmönnum sínum og vísaði svo til áranna 2003 til 2015 þegar landið hætti að geta tekið þátt í alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum í stjórnartíð Kirchner og eiginmanns hennar Néstor Kirchner sem fallinn er frá. „Við vorum aldrei brjáluð þegar við stjórnuðum.“