Virði bréfa í danska skartgripaframleiðandanum Pandoru hefur fallið um 85% frá því í janúar á þessu ári. Gengi bréfanna er nú tæpur fjórðungur þess sem það var þegar félagið var skráð á markað í október 2010.

Vandræði Pandoru hafa bein áhrif endurheimtir Seðlabanka Íslands vegna sölu á hinum danska FIH-banka í fyrrahaust. Helmingur kaupverðsins var nefnilega í formi seljendaláns sem hækkar í takt við gengi Pandoru og lækkar í takt við þróun eigna FIH bankans. FIH bankinn hefur tapað á annan tug milljarða króna frá því í apríl vegna gengis FIH og lánshæfismat bankans er komið í ruslflokk.

Pandora hrynur

Síðan í janúar hefur gengi bréfa í Pandoru hríðfallið. Það er nú um 50 danskar krónur á hlut, eða tæpur fjórðungur af skráningargengi félagsins. Gengi bréfanna féll til að mynda um 65% á þriðjudag eftir að tilkynnt var um að forstjóra Pandoru, Mikkel Vendelin Olesen, hafði verið sagt upp störfum og að afkomuspá félagsins fyrir árið í ár hefði verið breytt úr því að reikna með 30% aukningu á tekjum frá því í fyrra í að reikna með því að þær verði hinar sömu.

Hrun á virði Pandorubréfanna hefur haft gífurleg áhrif á eignasafn FIH sem hefur tilkynnt að hann hafi tapað rúmum 16 milljörðum íslenskra króna á því frá 1. apríl. Þá var gengið 264. Frá áramótum er tapið 19 milljarðar króna.

Af ofangreindu er ljóst að tap vegna eigna FIH er enn sem komið er töluvert og stjórnendur bankans telja að það muni aukast. Þá var lánshæfismat FIH, sem var sett í ruslflokk í mars síðastliðnum, lækkað enn að undanförnu. Í júní lækkaði Moody´s það úr Ba1 í Ba2. Aðalástæða niðurfærslurnar er sú að FIH þarf að endurfjármagna lán frá danska ríkinu upp á 1.100 milljarða króna sem er á gjalddaga á næstu tveimur árum. Moody´s telur FIH verða í vandræðum með að ráða við þá endurfjármögnun.

Áhrif þessa á endurheimtur Seðlabankans verða gríðarlegar. Raunverulegur möguleiki er á því að ekki náist inn fyrir 500 milljóna evra láninu sem bankinn veitti Kaupþingi í bankahruninu og olli FIH tapi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.