Hrund Rudolfsdóttir hefur verið ráðin nýr forstjóri Veritas samstæðunnar frá og með 15. október næstkomandi. Hreggviður Jónsson, sem verið hefur forstjóri félagsins frá stofnun, tekur við stöðu stjórnarformanns frá sama tíma.

Veritas samstæðan samanstendur af móðurfélaginu, Veritas, ásamt fjórum rekstrarfélögum sem hvert um sig er leiðandi á sínu sviði í þjónustu við heilbrigðisgeirann á Íslandi.  Vistor; í markaðssetningu og skráningu á lyfjum, Distica; í vörustjórnun og dreifingu, Artasan; í markaðssetningu á lyfjum og lausasölulyfjum og MEDOR; í sölu á lækningatækjum, hjúkrunarvörum og rannsóknarvörum.  Velta samstæðunnar á síðasta ári var rúmir 15 milljarðar króna og starfsmenn um 180.  Samstæðan er með þrjár starfsstöðvar í Garðabæ og Hafnarfirði.

Hrund Rudolfsdóttir hefur verið í stjórn Veritas frá 2009 og þekkir því vel til reksturs félagsins og starfsumhverfis þess.