Í morgun birtust tvær tilkynningar vegna Hrundar Rudolfsdóttur og Tina Pidgeon, stjórnarkvenna í Nova. Hrund fjárfesti í félaginu í tenglsum við útboðið og Tina skrifaði undir kaupréttarsamning.

Hrund, sem er forstjóri Veritas Capital, keypti 478 þúsund bréf fyrir tæplega 2,4 milljónir króna á genginu 5,11 krónur samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Eignarhaldsfélagi í eigu hennar og eiginmanns hennar Kristjáns Óskarssonar, Stjánkur, á einnig tæplega 9,8 milljónir hluta í Nova, sem er um 44,5 milljónir króna að markaðsvirði, samkvæmt skráningarlýsingu Nova.

Sjá einnig: Nova fallið um tíund í fyrstu viðskiptum

Tina Pidgeon, sem kom inn í stjórn Nova í nóvember síðastliðnum, skrifaði á laugardaginn undir samning um kauprétti á 8,8 milljónum hluta í fjarskiptafélaginu á genginu 4,6 krónur á hlut, samkvæmt tilkynningu Nova. Nova Acquisition Holding, sem er í eigu fjárfestingafélagsins Pt. Capital, er á söluhliðinni í umræddum viðskiptum. Í skráningarlýsingu Nova kemur fram að Tina, sem tengist bandaríska sjóðnum, starfi sem sjálfstæður raðgjafi í stefnumótun.

Leiðrétt: Þegar fréttin birtist fyrst kom fram að Tina Pidgeon hefði nýtt kaupréttina til að kaupa í Nova. Rétt er þó að Tina hafi einungis skrifað undir kaupréttarsamninginn á laugardaginn en hefur ekki enn nýtt kaupréttinn.

Tina Pidgeon var kjörin í stjórn Nova í nóvember.
Tina Pidgeon var kjörin í stjórn Nova í nóvember.