Hrund Rudolfsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri starfsþróunar hjá Marel Food Systems Corporate, sem er ný staða hjá fyrirtækinu.

Hrund hefur gegnt starfi framkvæmdstjóra rekstrar- og fjárfestingarverkefna hjá Milestone / Moderna hf. síðan 2007. Þar áður var hún framkvæmdastjóri L&H eignarhaldsfélags, 2003-2007, og framkvæmdastjóri Lyf & heilsu hf., 2003-2006.

Hrund situr í stjórn Pharma Investment, hollensks eignarhaldsfélags um erlendar lyfjafjárfestingar, sem og nokkurra fyrirtækja og samtaka á Íslandi. Þeirra á meðal eru Lífeyrissjóður Verslunarmanna, LeiðtogaAuður, ÁrnasonFaktor, Samtök atvinnulífsins og Samtök verslunar og þjónustu.

Hrund er með M.Sc. gráðu í alþjóðaviðskiptum frá Copenhagen Business School og Cand.Oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hún er gift og á þrjár dætur. Hrund mun hefja störf hjá fyrirtækinu í mars n.k.